131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat.

[10:44]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Miklar jarðfræðirannsóknir hafa staðið yfir á Kárahnjúkasvæðinu í a.m.k. 20 ár, fyrst á vegum Orkustofnunar og síðan á vegum Landsvirkjunar. Þegar skýrslur jarðfræðinga liggja fyrir hanna verkfræðingar mannvirkin á grundvelli þeirra skýrslna og aðlaga þau að jarðfræðilegum aðstæðum.

Í þessu tilfelli er um grjótstíflu að ræða með steyptri kápu og þá er tekið tillit til frágangs í stíflugrunni, styrkingar bergs, lekavatns í jarðlögum móti stíflu, t.d. með grautun. Í upphaflegri hönnun var gert ráð fyrir að misgengjakerfið á Kárahnjúkasvæðinu væri óvirkt, þ.e. engar hreyfingar hefðu átt sér stað á síðustu 10–12 þúsund árum, þ.e. frá síðustu ísöld. Jarðfræðilegar athuganir á byggingartíma eru stöðugt í gangi og hafa leitt í ljós að misgengjakerfið er viðameira en áður var talið og að misgengi í 5 km fjarlægð suður af Kárahnjúkastíflu er talið hafa hreyfst fyrir 3–4 þús. árum.

Sérfræðingar hafa gert skýrslu um málið og þar segir að lítil eða engin jarðskjálftavirkni sé á svæðinu sem sé þó ekki fullkomlega stöðugt til höggunar og jarðskjálfta. Endurskoðun á hönnun stíflnanna er stöðugt í gangi og Landsvirkjun hefur fengið bestu fáanlega ráðgjafa og sérfræðinga í heimi til að fylgjast bæði með hönnun og framkvæmdum enda mikið í húfi. Kostnaður við styrkingu á stíflunum gæti numið 100–150 millj. kr. sem er örlítið brot af byggingarkostnaði. Þess má geta að virkjunarmannvirki á Þjórsársvæðum sem eru mjög virk og mun yngri jarðfræðilega en Kárahnjúkasvæðið eru miklu meiri en á Kárahnjúkasvæðinu.

Ég átta mig ekki á til hvers úrtölur og tortryggnistal stjórnarandstöðunnar er hér í gangi.