131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

sStíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat.

[10:51]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hrópar upp og gefur í skyn að framkvæmdin sé í hættu vegna þessa misgengis. Til að gera sér grein fyrir heildarmyndinni kostaði um 150 milljónir að bregðast við þessu, sem strax var gert, en framkvæmdin sjálf er upp á 90 milljarða.

Af máli hæstv. iðnaðarráðherra má dæma að öll vinnubrögð varðandi hönnun Kárahnjúkastíflu séu fagleg og vönduð. Vísindamenn hafa gert allar þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru og nú er þetta í því ferli að meta nýjustu tíðindi. Við sjáum af útkomunni að misgengi svæðisins er viðameira en áður var áætlað en við þeim tíðindum hefur verið brugðist með faglegum hætti.

Við skulum ekki gleyma því að sem betur fer eru slík mannvirki hönnuð með mikil öryggissjónarmið að leiðarljósi og á gögnum má lesa að stífla líkt og Kárahnjúkastífla er ekki talin í hættu vegna jarðskjálfta, hún á að þola slíkt. Við gerum að sjálfsögðu þá kröfu að menn hanni og byggi slíkt mannvirki með öryggi í huga, enda um stærstu framkvæmd Íslandssögunnar að ræða. Ég treysti þeim sérfræðingum sem að málinu koma og orðum hæstv. iðnaðarráðherra um að hún sé þess fullviss að engin hætta sé á ferðum.

Svæðið fyrir austan er ekki mjög virkt. Þess vegna er gott til þess að vita að stíflurnar við Hálslón séu hannaðar með það að markmiði að þola sama álag af völdum jarðhræringa og stíflumannvirkin á Þjórsár-/Tungnaársvæðinu og er það gert þrátt fyrir þá vitneskju að svæðið fyrir austan fjall er margfalt virkara en það sem við ræðum hér. Vonandi mun framkvæmdum ekki seinka við þetta ferli en af öllu er ljóst að Landsvirkjun gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir mikilvægi þeirra mannvirkja sem um ræðir og áhættu þeirri sem blasir við okkur ef ekki er vandað til verka. Af umræðunni liggja fyrir vönduð vinnubrögð og viðbrögð Landsvirkjunar við þessu máli og er það mat mitt að allir aðilar sem að málinu koma hafi það að markmiði að vinnan gangi hratt og vel fyrir sig en fyllsta öryggis sé gætt.