131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat.

[10:55]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Mér þótti vænt um að heyra að hv. 7. þm. Norðaust., Einar Már Sigurðarson, flutti aðra rullu hér en fyrri þingmaður Samfylkingarinnar, hv. 7. þm. Reykv. s., Mörður Árnason, sem er einn af þeim mörgu mönnum innan Samfylkingarinnar, eins og t.d. hv. þm. Helgi Hjörvar, sem hafa mjög amast við Kárahnjúkavirkjun og öðrum mannvirkjum austur þar. (Gripið fram í: Hann er ekki …)

Á hinn bóginn kom mér ekki á óvart að hv. 5. þm. Norðaust., Steingrímur J. Sigfússon, skyldi hefja þessa umræðu. Ef minnst er á álver má segja um hann: Finni hann laufblað fölnað eitt / fordæmir hann skóginn. Mætti kannski segja þegar tekin er áhætta í virkjunum að gömlum alþýðubandalagsmönnum væri nær að hugsa til þeirrar miklu áhættu og litlu rannsókna sem sumir sögðu að hefði verið áður en Magnús Kjartansson, iðnaðarráðherra Alþýðubandalagsins, ákvað að ráðast í Kröfluvirkjun (Gripið fram í.) á árunum 1973–1974. Ég man raunar þann tíma þegar Kröflueldar komu og á lítinn hraunmola sem kom upp um rör á einni borholunni í Bjarnarflagi í Kröflueldum.

Þó svo að við minnumst þessa vitum við Norðlendingar að við verðum að lifa í þessu landi, og einmitt nú erum við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að berjast fyrir því að álver rísi við Húsavík. Við höfum hugsað okkur að nota jarðvarmann frá Bjarnarflagi til þessa álvers, nema ef vera kynni að álverið kæmi við Eyjafjörð, sem ég veit ekki um á þessari stundu. En við Norðlendingar erum ekki hræddir við að taka áhættuna, við teljum að við verðum að nýta kosti landsins. Varðandi Kárahnjúka vitum við að það er minni áhætta að reisa stíflu þar en önnur orkuver sem við höfum (Forseti hringir.) reist á síðustu áratugum og hugsum okkur að reisa nú.