131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat.

[11:00]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tekur ekki rökum og hann ber höfðinu við steininn. Það er svo sem ekki nýtt, hann hefur alltaf verið hræddur við nýjungar og hann er líka hræddur við stórframkvæmdir.

Ég minni á það að ýmsir voru hræddir við Hvalfjarðargöngin hér forðum (Gripið fram í.) en þau hafa nú heldur betur sannað sig. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað hér um misgengi á Kárahnjúkasvæðinu er rétt að benda sérstaklega á eftirfarandi: Allar stíflur á borð við þær er hér um ræðir eru hannaðar til þess að þola hreyfingu og leka. Hönnun Kárahnjúkavirkjunar og stíflumannvirkja er í samræmi við alþjóðlegar vinnuaðferðir og hefur staðist ströngustu gæðastaðla erlendra eftirlitsaðila. Sprungur, sem kunna að opnast eða víkka á botni lónsins langt frá stíflusvæðinu munu ekki valda auknum leka úr lóninu. Það er því rangt sem hefur verið látið í veðri vaka að lónið geti tæmst af þeim sökum.

Stíflurnar við Hálslón eru hannaðar til þess að þola sömu áraun af völdum jarðhræringa og stíflumannvirkin á Þjórsár-/Tungnaársvæðinu. Þetta er gert þrátt fyrir að Þjórsár-/Tungnaársvæðið sé margfalt virkara hvað jarðhræringar varðar.

Ég hef nú greint frá staðreyndum þessa máls og mitt mat á stöðunni er að þrátt fyrir að frekari sprungur hafi fundist í lónstæðinu við Kárahnjúka hefur verið gripið til aðgerða þannig að þær muni ekki valda vandræðum við framkvæmd eða rekstur virkjunarinnar. Eftir að hafa kynnt mér staðreyndir málsins og með hvaða hætti brugðist er við þessum nýju upplýsingum við hönnun og byggingu stíflnanna er ég þess fullviss að ekki er hætta á ferðum við rekstur Kárahnjúkavirkjunar. Ég hef áður talað í sambandi við óskylt mál um belti og axlabönd. Ég held að í þessu tilfelli sé óhætt að tala um tvenn axlabönd og tvö belti. (Gripið fram í.)