131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Afturköllun þingmáls.

[11:02]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að ég þarf að greina frá tillögu sem ég hef fram að færa. Þann 22. mars síðastliðinn mælti ég fyrir frumvarpi til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins en efni þess var að leggja niður starfsemi tryggingardeildar útflutnings. Um starfsemi var að ræða sem tilraun hafði verið gerð með frá árinu 2002 í samstarfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins. Samningur um samstarfsverkefnið tók gildi þann 15. apríl 2002 og rennur í raun út á morgun, 15. apríl 2005.

Af hálfu aðila að verkefninu þótti ekki nægilegur áhugi fyrir tryggingardeildinni til að halda áfram með verkefnið. Því var áðurnefnt frumvarp flutt. Nú hefur komið fram að mikill áhugi er á því hjá atvinnulífinu að þessari starfsemi verði haldið áfram og látið reyna á það til þrautar með hvaða hætti hún geti þróast til framtíðar og að framlengja þessa tilraun í þrjú ár til viðbótar.

Samstarfssamningurinn milli þessara aðila mun því ekki renna út heldur verður hann framlengdur. Ég dreg því þetta frumvarp, 659. mál á þskj. 1003, til baka í samræmi við 60. gr. þingskapa.