131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Afturköllun þingmáls.

[11:04]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessum tíðindum. Ég minni á að við umræður um þetta mál sáu ekki margir hv. þingmenn að mjög sterk rök væru fyrir því að fara þá uppgjafarleið sem hæstv. ráðherra lagði til í frumvarpi. Það er vissulega fagnaðarefni að menn skyldu sjá að sér áður en lögin yrðu felld úr gildi eða Alþingi fengið til þess, þ.e. ef Alþingi hefði látið hafa sig út í það. Það voru ákaflega fátæklegar röksemdir að deildin hefði ekki verið notuð eins mikið og mönnum hafði dottið í hug. Nærtækast var auðvitað að spyrja sig hvort þar þyrfti að gera einhverjar breytingar eða endurskipuleggja starfsemina þannig að hún komi að því gagni sem til er ætlast.

Svo lengi sem nokkur þörf er fyrir þjónustuna er ákaflega sérkennilegt ef Ísland hefði enga fyrirgreiðslu eða þjónustu af þessu tagi í boði eða mögulega, gagnstætt við það sem yfirleitt tíðkast í nágrannalöndum okkar. Það kemur mér síður en svo á óvart að þegar menn fari að huga betur að þessu máli, eins og greinilega hefur gerst í atvinnulífinu, sjái menn að þetta er hið mesta óráð.

Eftir stendur áleitin spurning: Hvernig hugsa menn þessi mál í hinu háa ráðuneyti? Hvers konar undirbúningur og skoðun fer fram áður en ráðuneytið rýkur til og hendir inn frumvörpum um hluti af þessu tagi, sem reynast tóm vitleysa eða gönuhlaup og hæstv. ráðherra verður að kalla frumvörp sín til baka.

Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð. Því ber að fagna ef menn vitkast en maður veltir fyrir sér hvort þetta séu einu mistökin sem hinu háa iðnaðarráðuneyti og hæstv. iðnaðarráðherra kunni að verða á af þessu tagi. Kannski er enn ríkari ástæða en ella, sem hefur þó svo sannarlega verið fyrir hendi, til að lesa með gagnrýnu hugarfari ýmislegt sem frá hæstv. iðnaðarráðherra kemur.