131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:14]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þekkingarskort ráðherrans. Þetta eru stórar framkvæmdir í íslensku atvinnulífi. Við ræðum um þenslu og verðbólgu og forgangsröðun framkvæmda, við ræðum um gríðarlegan niðurskurð á vegaframkvæmdum vegna þenslu. Allt þetta hljótum við að vega saman. Mér finnst furðulegt ef hæstv. ráðherra atvinnumála, ráðherra byggðamála, telur engu skipta að vita hvaða stærðir er um að ræða inn í íslenskt efnahagslíf. Ég hefði gjarnan viljað að þessar upplýsingar lægju fyrir í þessari umræðu. Það er engin leið og fráleitt að horfa á þessar framkvæmdir og líta svo á að þær séu óháðar íslensku efnahagslífi og íslensku atvinnulífi. Það er af og frá.

Herra forseti. Mér þætti vænt um að forseti styddi mig í að fá ráðherra til að koma með þessar upplýsingar sem fyrst inn í umræðuna.