131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:15]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður leggur kannski til að framkvæmdirnar séu stöðvaðar. Það mætti helst skilja orð hans þannig. Það að ég telji að engu skipti í sambandi við hagkerfið er náttúrlega bara orð sem hv. þingmaður gefur sér. Það hef ég aldrei sagt. Auðvitað skipta allar framkvæmdir máli en rétt að halda því til haga hvað varðar verðbólguna að það er minni hluti áhrifanna vegna verðbólgunnar sem nú er út af framkvæmdunum fyrir austan. Þenslan á húsnæðismarkaðnum ræður mestu þar um. Þetta ætti hv. þingmaður að taka með í reikninginn þar sem hann hefur náttúrlega eins og allir þekkja reynt að halda því fram að allt sem neikvætt gæti talist í samfélaginu sé út af framkvæmdunum fyrir austan. En þarna erum við að tala um framkvæmdir í hans eigin kjördæmi og þær eru mjög jákvæðar og ánægulegt hvernig þetta gengur til. Ég veit að fjórði áfangi kemur eftir að framkvæmdum lýkur fyrir austan og það er mjög jákvætt að það verði ekki skellur í hagkerfinu heldur koma þær framkvæmdir í framhaldi af opnun álversins á Reyðarfirði.