131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:43]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason kemur mikið inn á tímasetningar í þessu samhengi. Það er alveg ljóst að meginþungi þessara framkvæmda mun eiga sér stað eftir að kúfinum verður náð fyrir austan. Hagfræðingar hafa sagt það og fulltrúar fjármálastofnana að þetta muni verða til þess, og muni ýta undir hagvöxt hér á landi þegar því skeiði lýkur, þ.e. uppbyggingunni fyrir austan. Þeir tala almennt um þessa framkvæmd í jákvæðum skilningi vegna þess að aukinn hagvöxtur er ávísun á aukinn kaupmátt fólksins í landinu. Vinstri grænir virðast vera á móti því að við höldum uppi hagvexti í landinu.

Þegar hv. þingmenn tala um að við séum að skera niður fé til vegamála út af framkvæmdum á Austurlandi eða hér á Grundartanga, þvílík endaleysa. Ef við setjum hlutina í samhengi, hver er útlánaaukning íslensku bankanna síðustu 9–10 mánuði? Ætli hún sé ekki 150–170 milljarðar? Hverjar ætli framkvæmdirnar séu fyrir austan? Nokkrir tugir milljarða. Við skulum því skoða þetta í því samhengi að það er ekki eingöngu vegna stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi sem við erum að gæta aðhalds í vegamálum.

Fyrst hv. þingmenn Vinstri grænna eru nú svona almennt áhugasamir um vegagerð skal ég rifja upp að við verjum nú margföldum fjármunum til vegagerðar á við það þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var samgönguráðherra, miklu meiri fjármunum. Það er vegna þess að við höfum tekjur, við höfum tekið hér atvinnustefnu sem hefur skotið raunverulegum stoðum undir rekstur þjóðarbúsins. Við höfum núna tekjur og við höfum aldrei varið jafnmiklum fjármunum til vegagerðar hér á landi eins og núna. Það er annað en þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var samgönguráðherra, enda var þá íslenskt atvinnulíf og íslenskt efnahagslíf ekki í stakk búið til að standa í allri þeirri vegagerð sem þá var ráðist í.