131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:45]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst dapurlegt hvað hv. þingmaður er illa að sér í stöðu efnahagsmála í dag og það verður hann bara að eiga við sig. Það stendur í texta bæði fjárlaganna og fjárlagafrumvarpsins og einnig í skýrslu Seðlabankans að ríkið verði að skera niður útgjöld sín vegna stóriðjuframkvæmdanna. Hvar kemur sá niðurskurður niður? Hann kemur fyrst og fremst og nánast alfarið niður á vegáætlun. Þar er verið að skera niður 6 milljarða kr. Ætli kjósendur hv. þingmanna á Norðausturlandi séu hrifnir af því að það er verið að skera niður eða seinka vegaframkvæmdum þar vegna stóriðjuframkvæmda sem jafnframt eru að þenja atvinnulífið, skapa miklu erfiðari stöðu fyrir útflutningsatvinnuvegina en annars væri?

Má ég vitna líka í að það eru fleiri en talsmenn iðnaðarins og fjármálamarkaðarins sem vara við þessari þenslu sem í gangi er. Í leiðara Morgunblaðsins föstudaginn 8. apríl er fjallað um það að Norðlendingar hafi verið lítið hrifnir af áláróðri hæstv. iðnaðarráðherra.

Í leiðara Morgunblaðsins segir, með leyfi forseta:

„Þessar niðurstöður hljóta að vekja helstu formælendur stóriðjuframkvæmda til umhugsunar. Ljóst virðist að stór hluti Norðlendinga líti frekar til annarra kosta en stóriðju hvað varðar uppbyggingu og þróun atvinnulífs ...“

Svo er klykkt út með þessu í leiðara Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

„Niðurstöðurnar hljóta raunar að vera hvatning þeim sem vilja kanna vandlega aðra atvinnukosti, sem væru meira í takt við nýja tíma upplýsingasamfélags og hátækniiðnaðar.“

Þetta segir í leiðara Morgunblaðsins. Er það í takt við það að vilja efla hátækniiðnaðinn að við sitjum hér á samkeppnisstöðu skipasmíðaiðnaðarins (Forseti hringir.) sem aðrar þjóðir reyna að styrkja með (Forseti hringir.) öllum ráðum? Væri ekki líka gott (Forseti hringir.) ef skipasmíðaiðnaðurinn á Akranesi fengi (Forseti hringir.) sömu samkeppnisstöðu og er í öðrum löndum, herra forseti?

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að halda sig innan þess tíma sem gefinn er til andsvara og svara.)