131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:48]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður setti það mjög skýrt fram að hann teldi að þessar framkvæmdir þarna í Hvalfirði væru ekki tímabærar og líklega má helst skilja orð hans þannig að hann sé á móti þessum framkvæmdum. Ég vil bara fá það á hreint.

Ég tel að þó svo að einhverjir hér hafi verið á móti því í upphafi að þessi verksmiðja yrði byggð þarna í Hvalfirði þá hljóti menn, eftir að sú verksmiðja hafði verið byggð, að samþykkja þá niðurstöðu sem er að menn þurfi að stækka verksmiðjuna þannig að hún verði samkeppnishæf á heimsvísu, eins og verið er að gera. Það er ekki hægt að vera í gömlu sporunum endalaust. Maður verður að taka tillit til nýrra aðstæðna þegar þær hafa breyst eins og hér.

Ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að eðlilegt sé að stækka þessa verksmiðju þannig að hún verði samkeppnisfær inn í framtíðina. Auðvitað geta menn svo haft skoðun á því hvenær sú stækkun eigi að fara fram. Ég tel að eðlilega sé að þessum hlutum staðið og fagnaði því í fyrri ræðu minni.

Svo ræddi hv. þingmaður um skipasmíðaiðnaðinn og setti eiginlega samasemmerki þarna á milli. Skipasmíðaiðnaðurinn á Akranesi, þ.e. sú starfsemi, hefur haft gríðarlega mikið gagn af verksmiðjunum þarna inn frá. Menn hafa unnið í þessum fyrirtækjum mjög mikið fyrir verksmiðjurnar og mjög mikið af vinnuafli og þekkingu hefur verið keypt af verksmiðjunum inn á það svæði. Skipasmíðaiðnaður er hátækniiðnaður. En það er líka hátækniiðnaður fólginn í álverum og járnblendiverksmiðjunni þarna inn frá.