131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:52]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst rök hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér í umræðunni fyrir nokkrum dögum mjög sterk fyrir því að þessi niðurskurður í vegamálum væri auðvitað bara broslegur vegna þess að hann vegur svo lítið og vegna þess hvernig hann hlýtur að koma niður. Það er engin ástæða til þess að skera niður í byggðamálum eins og raunverulega er verið að gera því að niðurskurður í vegamálum er auðvitað niðurskurður í byggðamálum. Það er svo lítill hluti af heildarveltu samfélagsins sem þarna er á ferðinni að það er alveg ótrúlegt í raun að ríkisstjórnin skuli mæta með það eitt hér í þingsali að til að vinna á móti þenslunni þá eigi að skera niður þetta í vegamálum. Á sama tíma er hún búin að negla það í lög að það eigi að lækka skatta um 22 milljarða. Ekki ætla ég að fara í forsvar fyrir það. Ég held því hins vegar fram að þær framkvæmdir sem við erum að tala hér um í Hvalfirði hljóti að verða að fá að ganga sinn gang. Það er auðvitað heppilegt að menn hafi um það tölurnar og allt það.

En ég spyr hv. þingmann og vil fá skýrt svar við því ef það er mögulegt: Ef hann horfist í augu við þá staðreynd að þessi verksmiðja sé þarna til staðar, horfist hann þá ekki líka í augu við þá staðreynd að hún þurfi að stækka til að verða samkeppnisfær og að stjórnvöld í þessu landi verði þá í raun að standa við bakið á þeim sem reka þetta fyrirtæki til þess að þessi stækkun geti farið fram? Hefur hann þá eitthvað við þetta mál í raun og veru að athuga annað en það að hann vildi kannski að tímasetningar á verkefnunum væru aðeins öðruvísi?