131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[12:09]

Guðjón Guðmundsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta andsvar segir mér það eitt að ég sé ekki nógu áheyrilegur því að ég varði drjúgum tíma ræðu minnar í að fjalla um hugleiðingar hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og tók undir það að þetta væri skoðunar virði og rakti það m.a. hvernig þetta hefði verið gert áður, bæði á sínum tíma vegna væntanlegrar kísiliðju á Reyðarfirði, sem aldrei varð að veruleika, og eins umræður sem urðu á hv. Alþingi um álverið á Grundartanga. Þetta var rætt talsvert þá.

Ég get þá endurtekið það, ég tók undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að mér fyndist full ástæða til að skoða þetta vel og það væri ekki sanngjarnt og eðlilegt að allar tekjur lentu í einum litlum hreppi í stað þess að dreifast á það svæði sem kæmi til með að veita stóriðjufyrirtækjunum þjónustu, eins og gert var ráð fyrir á Reyðarfirði á sínum tíma.