131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[12:23]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta litla frumvarp, sem er í reynd um heimildir til álagningar fasteignagjalda vegna stækkunar álbræðslu á Grundartanga, hefur sem eðlilegt má teljast gefið tilefni til þess að ræða þá framkvæmd og ýmislegt sem henni tengist. Ég hlýt að segja það í byrjun að mér finnast menn vera býsna viðkvæmir fyrir því að framkvæmdin sé rædd í almennu samhengi sem hluti af stóriðjuframkvæmdum í landinu og efnahagsáhrifunum samfara þeim. Ég mun a.m.k. ekki láta það hafa áhrif á mig og aftra mér frá því að koma með ýmsar hugleiðingar um þessi efni þó ýmsir þingmenn hafi brugðist við slíkum umræðum með þeim hætti sem raun ber vitni, t.d. við hv. þm. Jóns Bjarnasonar, og satt best að segja ekkert óskaplega málefnalega ef ég á að leyfa mér að gefa því örlitla einkunn.

Það má margt jákvætt segja um það hvernig uppbyggingu álversins á Grundartanga hefur verið hagað borið saman við aðrar framkvæmdir þar sem menn byggja í einum risaáfanga álver í fullri stærð og gríðarlegar virkjanir sem þarf til að setja af stað slíkt álver í einum tímapunkti. Augljóst er að áfangaskipting í uppbyggingu af því tagi sem átt hefur sér stað á Grundartanga hefur ýmsa kosti, m.a. þá að framkvæmdirnar þjappast ekki eins saman í tíma og hafa ekki jafngríðarleg röskunaráhrif á skömmu tímabili eins og t.d. risaframkvæmdirnar fyrir austan.

Þá er líka ljóst að þær virkjanir sem að lokum urðu fyrir valinu til að framleiða rafmagn í stækkunina á Grundartanga eru til muna skárri frá umhverfislegu sjónarmiði séð en t.d. Kárahnjúkavirkjun eystra eða Þjórsárveravirkjun sem til stóð að taka í stækkunina, eins og hv. þm. Jón Bjarnason benti réttilega á. Muna menn ekki röksemdafærsluna að því miður stæði svo óheppilega á að eini virkjunarkosturinn sem væri fullrannsakaður og tilbúinn og hægt væri að ráðast í með nógu skömmum fyrirvara væri ranglega kölluð Norðlingaölduveita, sem betur á skilið nafnið Þjórsárveramiðlun, á sínum tíma? Það reyndist ekki vera og sú heimatilbúna tímanauð sem menn notuðu fyrir þeirri röksemdafærslu var auðvitað að engu hafandi og í ljós kom að hægt væri að ráðast í gufuaflsvirkjanir á Reykjanesskaganum og Hellisheiði og framleiða þar rafmagn í stækkunina, a.m.k. fyrsta áfanga hennar sem ákveðinn var úr 90 þúsund tonnum í þau 180 þúsund tonn sem upphaflega var ákveðið að ráðast í. Þær gufuaflsvirkjanir eru að flestu leyti mun vænlegri kostur í umhverfislegu tilliti en hitt. Þetta höfum við talsmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs alltaf viðurkennt og bent á. Það mætti einmitt vera mönnum til umhugsunar að láta ekki setja sig í bóndabeygju af því tagi sem reynt var að halda umræðunni í á sínum tíma þegar réttlæta átti framkvæmdirnar í Þjórsárverum til að framleiða rafmagn í framkvæmdina.

Stóriðjuframkvæmdin er auðvitað hluti af heildarmyndinni. Hún er hluti af þeim samanlögðu framkvæmdum sem á að ráðast í á skömmum tíma með gríðarlegum afleiðingum fyrir íslenska hagkerfið. Því getur enginn maður borið á móti. Varðandi umhverfisþáttinn er það að sjálfsögðu ekki svo að þarna sé ekki líka áhyggjuefni á ferð. Ég kannast ekki við þær mælingar sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson vitnaði í, að mengun væri langt undir öllum mörkum í Hvalfirði. Ég hef séð þar umtalsverða loftmengun, t.d. snemma morguns á kyrrum dögum þegar svo virðist sem losað sé út í andrúmsloftið af einhverjum ástæðum uppsafnað magn mengunar, hvort sem það er vegna hreinsunar eða hvað þá er á ferðinni. Þeim umfangsmeiri sem verksmiðjurekstur sem losar út í andrúmsloftið mengandi efni verður á svæðinu þeim mun meiri verður loftmengunin og ákoman af mengandi efnum. Það er alveg ljóst. Þá er ekki síst ástæða til að hafa í huga rafskautaverksmiðjuna sem hæstv. ráðherra vill byggja þarna líka og sjálfsagt á sömu árum.

Varðandi verðbólgu, sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra nefndi og kom með að væri eiginlega ekkert vandamál, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, vegna þess að hún stafaði að mestu leyti af þenslu á fasteignamarkaði. Ég held að það skipti ekki öllu máli, verðbólga er verðbólga og leiðir til hækkana verðlags og rýrnunar umsamins kaupmáttar og þenslan sem við upplifum í hagkerfinu er vandamál sem þýðir ekki að reyna að afgreiða með þessum hætti. Ef ekki væri það verðstríð sem geisað hefur hjá stórverslanakeðjum á undanförnum vikum og leitt hefur til þess að þær verslanir hafa jafnvel svo til gefið heila vöruflokka dögum og vikum saman væri ástandið ekki félegt í verðbólgumælingunum núna. Það er fyrst og fremst það sem vegur upp á móti þenslunni og verðbólgunni af öðrum ástæðum sem veldur því að ástandið er ekki verra en raun ber vitni. Þetta mætti líka fara yfir og ræða.

Staðreyndin er sú að flestir aðilar aðrir en ríkisstjórnin og hörðustu stuðningsmenn hennar og talsmenn stóriðjustefnunnar á Alþingi hafa miklar áhyggjur af stöðu efnahagsmála. Það er alveg ótrúlegt að heyra þingmenn tala eins og það skipti engu máli það sem kemur frá Seðlabankanum, greiningardeildum bankanna, forsvarsmönnum í atvinnulífinu öðru en í stóriðjunni. Ég gæti reitt fram pappíra sem sýna það og sanna, t.d. umfjöllun Seðlabankans þegar hann er að ræða hinar miklu og samþjöppuðu stóriðjuframkvæmdir sem séu ein þriggja meginskýringa á þeim mikla vanda í hagstjórn sem við er að glíma og hefur leitt til m.a. harkalegra hækkana Seðlabankans á stýrivöxtum að undanförnu, sem aftur hefur áhrif á gengi krónunnar o.s.frv.

Auðvitað eru álver eins og þetta á Grundartanga vinnustaður og skapar störf og þau eru ágætlega launuð, mörg hver. Því hefur enginn mótmælt. Það sem umræðan snýst þó væntanlega um er að ekki er hverju sem er til fórnandi fyrir þau störf. Við þurfum líka að velta fyrir okkur, Íslendingar, hversu stóran ætlum við — burt séð frá deilum um einstakar framkvæmdir og einstakar virkjanir sem þessu tengjast held ég að það sé meira en tímabært að menn taki umræðuna um það hversu stóran telja menn hagstætt að gera þennan þátt í efnahags- og atvinnulífi okkar, og hversu miklu viljum við ryðja út á móti af störfum, tækifærum og uppbyggingu á öðrum sviðum? Það er það sem er að gerast. Það sem talsmenn útflutnings- og samkeppnisgreinanna eru að reyna að benda á nú seint og um síðir er að það er ósköp einfaldlega ekki pláss í hagkerfinu fyrir hvort tveggja. Afleiðingin er sú að samkeppnisiðnaðurinn er að ýtast úr landi mjög hratt um þessar mundir og það sem er kannski tilfinnanlegast — og við vitum auðvitað aldrei og er í raun aldrei hægt að ræða nema í þáskildagatíð — er hve mörg glötuð tækifæri, hve margir nýsköpunarmöguleikar, líta aldrei dagsins ljós vegna þeirra aðstæðna sem þetta býr til í hagkerfinu á löngu árabili.

Þess vegna er það fullgilt að spyrja hæstv. ríkisstjórn: Hversu langt á að ganga? Þessi stækkun hér, þessi viðbótarframkvæmd sem nú er undir, sem sagt 32 og líklega plús 8 þús. tonn í viðbót ofan á þau 180 þús. tonn sem ákveðin höfðu verið í aprílmánuði 2004, og jafnvel enn 40 þús. tonn í viðbót við það innan skamms, þýðir að allt í allt muni þarna hafa bæst við 120 þús. tonna framleiðsla á skömmum tíma. Að endingu verður framleiðslan komin í 260 þús. tonn.

Ég held að það sé ekki vafi, herra forseti, og kannski skýrir það að einhverju leyti óþol og ómálefnaleg útbrot hv. þingmanna stjórnarliðsins sumra sem hér hafa orðið, að almenningsálitið er að snúast í verulegum mæli hinni blindu stóriðjustefnu í mót. Um það vitna t.d. ýmsar skoðanakannanir sem sýna að áframhaldandi stóriðjuuppbygging er mjög neðarlega á listanum þegar almenningur er spurður hvers konar atvinnuuppbyggingu hann telji að leggja eigi áherslu á. Tækni- og þekkingargreinar, ferðaþjónusta og ýmsar slíkar greinar eru þar mun ofar á lista. Aðeins lítill minni hluti þjóðarinnar telur að sú atvinnuuppbygging sem leggja beri mesta áherslu á á komandi árum sé áframhaldandi stóriðjuuppbygging.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins er sömu skoðunar, mælir nú ítrekað varnaðarorð og hvetur til þess að menn staldri við. Því ber auðvitað að fagna og það er enginn vafi á því að þau sjónarmið hafa verið að styrkjast í sessi. Þetta finna aðstandendur og forsvarsmenn hinnar blindu stóriðjustefnu og fer greinilega í taugarnar á þeim. Það er augljóst mál að það þarf úthald til að standa í ístaðinu í þessari umræðu en það er til staðar. Því get ég lofað hæstv. iðnaðarráðherra og hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og öðrum þeim sem heyra vilja.

Það er auðvitað orðið svo alvenjulegt að maður kippir sér ekkert upp við það þegar menn leyfa sér þann munað, ef munað skyldi kalla, að velta upp spurningum um þessa vegferð, hversu langt eigi að ganga. Hvað með efnahagsáhrifin? Eru menn sáttir við þá uppsetningu að menn hafi áframhaldandi opið hús fyrir frekari stóriðjuframkvæmdir en skeri svo niður vegaframkvæmdir til að þjóna einhverri táknrænni þörf fyrir það að sýnast ábyrgir í efnahagsmálum á móti? Það er staðreynd, sem má fletta upp á, að niðurskurður vegaframkvæmdanna strax eftir kosningarnar 2003 var beintengdur við stóriðjuáform. Ætla hv. þingmenn að halda einhverju öðru fram? Þarf að reka ofan í þá beinar tilvitnanir í þá sjálfa og ráðherra ríkisstjórnarinnar þar um?

Þegar menn tala núna um þenslu á fasteignamarkaði er það hlutur sem kom til sögunnar og fór að valda áhyggjum mun síðar. Það liggur algerlega fyrir. Að vísu hefur verið mikil tilhneiging til þess hjá ríkisstjórninni að reyna að gera fasteignamarkaðinn að allsherjarsökudólgi í þessum efnum, og þá kannski Seðlabankann með honum ef í harðbakkann slær. En ríkisstjórnin með stóriðjustefnu sinni, með skattalækkunum sínum og öðru því sem beinlínis er hér að verki á ævinlega að vera stikkfrí og hvítþvegin.

Framsóknarmenn koma þá hér upp með sínar venjulegur ræður um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé á móti framförum, sé á móti hagvexti eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði hér t.d. áðan, og gefur auðvitað þeim sjálfum og þeirra málflutningi einkunn. Það þarf svo sem ekkert endilega að eiga mikil orðaskipti við menn sem falla í svo barnalegan málflutning, falla í viðjar slíkrar framsetningar.

Þetta kann að hafa heppnast hjá Framsókn fyrst um sinn. Hún lagði mikla orku í að koma þeim stimpli á okkur að við værum á móti öllu, eins og kunnugt er, gott ef ekki bara framtíðinni, eins og formaður flokksins mun einu sinni hafa orðað það. Þau verða nú að horfast í augu við það að kannski eru þau sjónarmið sem við höfum einmitt staðið fyrir í þessum efnum að síast út og vinna sér brautargengi meðal þjóðarinnar í ríkari mæli en þau átta sig á. Það skyldi þó ekki vera að þrátt fyrir allt sé þjóðin að hugsa sinn gang í þessum efnum, átta sig á því að hin gamla, blinda — sem ég hef stundum kallað nordælska — stóriðjustefna er á undanhaldi? Þjóðin sér auðvitað að þetta er ekki atvinnustefna framtíðarinnar. Einhæfar pakkalausnir þar sem beitt er pólitísku handafli til að þvinga slíkar framkvæmdir og fjárfestingar inn í hagkerfið er forneskja, vinnur gegn fjölbreyttri atvinnustefnu þar sem nýsköpun, tækni, þekking og aðrir slíkir hlutir eru lagðir til grundvallar.

Hv. þm. Birkir J. Jónsson kom hér að fjárveitingum til vegamála, bar á móti því sem liggur fyrir, er staðreynd og er á pappírum, að hinn mikli niðurskurður í vegamálum sem gripið var til strax eftir kosningar 2003 — og ætti nú hv. þingmaður að muna þetta, m.a. vegna þess að Héðinsfjarðargöng voru þar í pakkanum — var gagngert réttlættur og nauðsyn hans talin vera vegna stóriðjuframkvæmdanna.

Síðan sagði hv. þingmaður að um þessar mundir væri varið margfalt meira fé til vegamála en hefði verið í minni tíð sem samgönguráðherra. Eigum við aðeins að fara yfir þessa fullyrðingu?

Hvert verður hlutfallið af vergri landsframleiðslu sem fer til framkvæmda í vegamálum á þessu ári? Já, nú hlær hv. þingmaður. Hvaða mælikvarða vill hv. þingmaður nota? (BJJ: Peninga.) Peninga, já? (BJJ: Fjármagn.) Án hlutfalls til stærðar þeirra í veltu þjóðarbúsins? (Gripið fram í: Við erum búin …) Já, já. Það er út af fyrir sig alveg rétt að það er verið að verja miklu meiri fjármunum til skólamála á Íslandi en var 1940, í peningum talið, en finnst einhverjum það ekki vera eðlilegt? Halda menn að hlutirnir gangi þannig fyrir sig og notaður sé sá mælikvarði að taka fjárveitingar til málaflokka fyrir áratugum síðan og segja: Þetta er meira fé að raungildi í dag þegar velta þjóðarbúsins er kannski tvö- eða þreföld á við það? Nei, ég held að flestir sanngjarnir menn viðurkenni nú að sá mælikvarði sem er skástur til að nota í þessum efnum sé hvort viðkomandi málaflokkur haldi hlut sínum miðað við stærðir í þjóðhagslegu samhengi eins og þær blasa núna við.

Ég tók að vísu við mjög vondu búi sem samgönguráðherra vegna þess að árið á undan, 1987, var minnstu fjármagni varið til vegamála á Íslandi sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu í sögunni. En því miður stefnir ríkisstjórnin að því að svo til jafna þetta met á næsta ári. Þá verður, miðað við spá, af um 1.055 milljarða landsframleiðslu einungis tæpum 12,5 milljörðum varið í vegamál, þ.e. 1,20% af vergri landsframleiðslu. Það er aðeins hörmungarárið í lok samstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á árunum 1983–1987 sem er svipað eða enn lélegra.

Þau ár sem ég var samgönguráðherra hækkaði þetta hlutfall á hverju ári. Það var að vísu frá mjög lágri viðmiðun, mjög lágum botni, sem ég tók við en þrátt fyrir efnahagserfiðleika og aðstæður á þeim árum var verið að reyna að þoka þessu hlutfalli upp á nýjan leik. Nú er ríkisstjórnin að lækka það mjög harkalega aftur til þess tíma sem það hefur verið einna lægst.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson má að sjálfsögðu, og hagar að sjálfsögðu, málflutningi sínum eins og hann vill. En ég ætla að spá hv. þingmanni því að ef hann leggur í vana sinn jafniðulega og mér því miður virðist vera að hirða ekkert um beinar skjallegar staðreyndir mála muni það koma honum í koll, sérstaklega þegar frá líður. Menn geta oft komist í einni snerru burtu frá málflutningi með því að bara henda fram einhverjum fullyrðingum sem eiga sér enga stoð í veruleikanum en oftast eltir sannleikurinn slíka menn uppi og þeir verða að lokum smátt og smátt berir að því og það verður viðurkennt — burt séð frá alveg pólitískum skoðanaágreiningi, sem er allt annar hlutur — ef menn eru algerlega hirðulausir um staðreyndir í málflutningi sínum. Þeir menn sem að lokum eru með sitt á hreinu í þeim efnum og leggja það ekki í vana sinn (Gripið fram í.) að fara með staðleysur eru að lokum teknir í landhelgi. (BJJ: Hver var staðleysan?) Þú fórst með mjög margar staðleysur og fullyrðingar út í loftið, bæði um t.d. áherslur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í atvinnumálum og þú hélst fram því sem ég tel vera (Forseti hringir.) rangar fullyrðingar, hv. þingmaður, um hlutföll fjárveitinga til vegamála á þann (Gripið fram í.) mælikvarða sem viðurkenndur er.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmann um að ávarpa forseta en ekki þingmann úti í sal.)

Ég biðst afsökunar, þetta er réttmæt ábending.

Það vill að vísu svo til að Alþingi Íslendinga samþykkti tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um áherslur í atvinnumálum á næstsíðasta þingi og gerði að sinni þá stefnu okkar að leggja áherslu á stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki, og nýsköpun og fjölbreytni í atvinnumálum. Það var bara ósköp einfaldlega samþykkt hér og nú ber ríkisstjórninni að vinna þeirri atvinnustefnu framgang.

Ég bið hv. þingmann, ef hann vill halda þessari umræðu áfram um fjárveitingar til vegamála, að fara í skýrslur samgönguráðherra gegnum tíðina um framkvæmd vegáætlunar. Á hverju einasta ári kemur hér skýrsla þar sem notuð er viðmiðunin hlutfall vegafjár af vergri landsframleiðslu (Forseti hringir.) sem sá mælikvarði einn sem sé sæmilega nothæfur til samanburðar gegnum tíðina í þessum efnum. Í því samhengi fer hv. þingmaður með staðlausa stafi.