131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[12:43]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

Það er eðlilegt í umræðu sem þessari að víða sé komið við. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í ræðu sinni áðan að ég hefði farið með staðleysur. Ég hafna því. Ég sagði áðan að mun meira fé væri varið til vegamála í dag en á tímum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar hann var ráðherra. Svo er það annað mál hvort við ætlum að bera það saman sem hlutfall af landsframleiðslu, það er ein viðmiðunin. Hv. þingmaður getur ekki komið hér upp og sagt að ég fari hér með staðleysur þegar staðreyndirnar tala sínu máli, við verjum mun meiri fjármunum í dag til vegamála en við gerðum á tímum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar er hann var samgönguráðherra.

Við ræðum hér um fjárlög á hverju einasta hausti. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar nefna það stundum að skuldir ríkisins séu miklar, þær hafi ekkert lækkað svo mikið. En þau minntust ekki orði á það við síðustu fjárlagagerð að skuldir ríkisins sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hefðu lækkað úr 35% niður í 17% (Gripið fram í: Þú vilt náttúrlega …) á árabilinu 1995–2004. (Gripið fram í.) Þá hentaði ekki stjórnarandstöðunni að tala um einhver hlutföll, nei, þá skyldi tala um krónur, við værum að ræða um fjárlög og við skyldum ræða um krónur og aura í því samhengi. Svo kemur hv. þingmaður hér og talar um að ég fari með staðleysur. Ég vísa því til föðurhúsanna. Að sjálfsögðu er hægt að segja sannleikann á marga vegu en þetta er nú sá sannleikur sem ég hef ákveðið að tala um í ræðu minni, að fjárveitingar til vegamála í dag eru miklu meiri en í fortíðinni og hafa trúlega aldrei verið hærri.

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um stækkun álversins á Grundartanga. Það hefur komið fram að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa verulegar efasemdir um áherslu ríkisstjórnarflokkanna á að stækka þetta álver. Reyndar kemur ríkisvaldið lítið nálægt þessari framkvæmd, nema með því að breyta þessum lögum sem hér eru til umræðu. Það er nefnilega þannig að þegar við breyttum raforkulögunum, sem reyndar Vinstri hreyfingin – grænt framboð var á móti, þá gerðu gömlu raforkulögin ráð fyrir því að Landsvirkjun hefði einkarétt á að framleiða rafmagn til þeirrar framleiðslu.

Nú höfum við breytt þeirri löggjöf, sem Vinstri grænir voru reyndar á móti. Þeir eru samkvæmir sjálfum sér í því en nú er komið á frjálsræði. Nú geta glæsileg fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja framleitt raforku til slíkra framkvæmda. Við höfum rætt um það í þingsölum að hlutfallslega sé hvað mest atvinnuleysi hér á höfuðborgarsvæðinu og ekki síst á Reykjanesi. Hvaða áhrif hafa framkvæmdir sem þessar, að virkja jarðhitann hér í nágrenni höfuðborgarsvæðisins? Þær skapa tugi ef ekki hundruð störf fyrir utan að að sjálfsögðu verða til afleidd störf á viðkomandi svæðum. Þessi framkvæmd hefur dregið úr atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu, það er óumdeilt. Þetta er mjög jákvæð innspýting, eins og forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja hafa bent á, í atvinnulíf á þeim svæðum þar sem atvinnuleysi hefur hlutfallslega verið hvað mest á umliðnum árum. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það hlýtur að vera erfitt að vera á móti svona máli.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason gagnrýndi tímasetningar í þessu sambandi. Ég vil taka það fram, enn og aftur eins og ég rakti hér í andsvari við hv. þingmann áðan, að meginþungi framkvæmdanna verður eftir að meginhluta framkvæmdanna verður lokið á Austurlandi.

Hvað hafa nú fjármálaspekúlantar í fjármálastofnunum, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að vísa til áðan, sagt? Þeir hafa sagt: Jú, það er hætta á niðursveiflu í hagkerfinu eftir að framkvæmdum lýkur á Austurlandi. Það er hætta á því að það dragi stórlega úr hagvexti, þar með minnki kaupmáttur fólks og að íslensku þjóðarbúi muni vegna verr í framhaldinu, skulum við gera ráð fyrir.

Þessir aðilar hafa fagnað þessari stækkun og sagt: Þessi framkvæmd, stækkun álvers á Grundartanga mun auka hagvöxt í samfélaginu, fyrir utan það sem er kannski hvað jákvæðast, að þegar stækkunin kemst að fullu til framkvæmda mun störfum á þeim vinnustað trúlega fjölga um 200. 200 störf á Vesturlandi. Er það svo, þegar menn tala um þenslu, að Borgfirðingar finni fyrir gríðarlegri þenslu eða að Akurnesingar finni fyrir óhóflegri þenslu á sínu svæði? Ég vil leyfa mér að fullyrða að svo sé ekki.

Hverjir munu trúlega vinna við þetta álver? Eru það ekki íbúar þessara byggðarlaga? Við ræðum um byggðastefnu og að það beri að styrkja byggð á landsbyggðinni. Er Borgarfjörður ekki hluti af landsbyggðinni? Eigum við ekki að styrkja þau byggðarlög eins og önnur svæði á landinu? Eigum við að setja okkur á móti því að fjölga störfum við álver á Grundartanga um 200? Samkvæmt mælingum sem hafa verið gerðar vegna álversins fyrir austan verða afleidd störf trúlega annað eins eða heldur meira. Við skulum ekki gleyma því að það eru þjónustufyrirtæki í viðkomandi byggðarlögum sem munu veita fyrirtækinu þjónustu. Vinnustaður eins og álverið á Grundartanga hefur gríðarleg áhrif á atvinnulíf í Borgarbyggð og á Akranesi, það er óumdeilt.

Menn tala um breytta atvinnuhætti. Hagræðing í sjávarútvegi og jafnvel í landbúnaði hefur aukist og störfum fækkað í þeim atvinnugreinum. Það er miður. En eigum við bara að horfa á aðgerðalaus og segja: Ja, þetta er bara þróunin? Má ekki gera neitt annað? Við erum að fjölga störfum á Vesturlandi um a.m.k. 200 á þessum vinnustað, hálaunastörfum. Oftar en ekki þarf vel menntað fólk til þessara starfa. Það er mjög undarlegt ef hv. þingmenn greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi. Ég vil ekki fullyrða neitt um það enda kemur það í ljós við atkvæðagreiðslur. En það er á hreinu að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lýst yfir miklum efasemdum um þessa framkvæmd.

Hæstv. forseti. Hér ræðum við iðulega um vegagerð og velferðarmál. Hvernig stöndum við að vegagerð í þessu landi ef efnahagur þjóðarbúsins stendur ekki styrkum fótum? Hvernig ætlum við að standa undir öflugri heilbrigðisþjónustu, sem kostar borgarana lítið? Hvernig ætlum við að standa undir öflugu velferðarkerfi, þéttriðnu velferðarkerfi sem kemur til móts við þá sem minna mega sín? Hvernig ætlum við að standa undir þessum öflugu kerfum í félagsmálum og heilbrigðismálum? Við þurfum að hafa einhverjar þjóðartekjur. Ríkissjóður verður að fá einhverjar tekjur til að standa undir þessum málaflokkum sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa talað ötullega um að okkur beri að standa vörð um. Það er stefna Framsóknarflokksins að standa vörð um öfluga velferðarþjónustu í landinu en til þess þurfum við tekjur. Við rekum ekki ríkissjóð með tugmilljarða halla á ári hverju til frambúðar enda hefur hann nær undantekningarlaust, þótt einhverjar undantekningar megi finna, en í heild sinni höfum við frá árinu 1995 rekið ríkissjóð með hagnaði, þegar á heildina er litið.

Hæstv. forseti. Háttvirtir þingmenn, a.m.k. hv. þm. Jón Bjarnason, hafa rætt um íslenskan skipasmíðaiðnað og að þessi stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar sé að gera út af við iðnaðinn sem slíkan, að hún bitni á smáiðnaði í landinu. Stóriðjustefnan bitnar á minni iðnaði, segja margir hverjir þingmanna Vinstri grænna og sé ég að hv. þm. Jón Bjarnason kinkar til mín kolli.

Hver er staða fyrirtækisins Slippstöðvarinnar á Akureyri í dag? Er hún ekki með margra hundraða milljóna króna samning vegna framkvæmda á Austurlandi við gerð Kárahnjúkavirkjunar, sem skapar tugi starfa á Akureyri? (Gripið fram í.) Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa sagt að þær framkvæmdir sem eiga sér stað á Austurlandi og samningar sem þeir hafa gert vegna þeirra hafi skipt gríðarlega miklu máli fyrir það fyrirtæki. (Gripið fram í.) Það er ekki rétt hjá hv. þingmönnum að segja að stóriðnaður hér á landi bitni illa á smærri iðnaði vegna þess að það þarf að þjónusta stóriðnað, eins og Slippstöðin á Akureyri gerir til hagsbóta fyrir Eyfirðinga. Störfum þar hefur fjölgað og styrkari stoðum hefur verið skotið undir þann glæsilega vinnustað.

Hæstv. forseti. Ég vil í lok máls míns þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Það er mikið talað um endalausa stóriðjustefnu Framsóknarflokksins í þessum sal og um að við ætlum að byggja álver út í hið óendanlega. Það er rangt. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að við skjótum fleiri stoðum undir íslenskt þjóðarbú. Hér er öflugur sjávarútvegur, sem stjórnarandstaðan hefur reyndar mjög óljósar tillögur um. Við viljum standa vörð um öflugan landbúnað, öfluga stóriðju og nýsköpun í landinu, enda hefur hæstv. iðnaðarráðherra ásamt samstarfsráðherrum sínum í ríkisstjórninni kynnt átak í þeim efnum að efla nýsköpun um allt land.

Við einblínum ekki á álver eða stóriðju. Það eru mörg járn í eldinum sem skipta máli fyrir íslenskt þjóðarbú. En að tala með þeim hætti, að umhverfi starfsfólks í íslenskum álverum sé slíkt að þar séu ekki nein fyrirtaks störf eða draumastörf sem börn okkar ætli að vinna við, er ekki rétt. Sumir vilja vinna á þessum vinnustöðum. Ég benti á það áðan, varðandi álverið í Straumsvík, að þar er biðlisti eftir að komast að og fá atvinnu. Meðallaunin í þessari atvinnugrein eru langt umfram það sem gengur og gerist á landsbyggðinni, langt umfram það sem gerist í Borgarfirði eða á Akranesi. Ríkisstjórnarflokkarnir styðja þetta mál af myndarskap til hagsbóta fyrir landsbyggðina. Borgarfjörður er hluti af landsbyggðinni og Vesturland er hluti af landsbyggðinni. Þar eru ekki bara Eyjafjarðarsvæðið eða Miðausturland. Við þurfum að styðja byggð víða um landið og það er markmiðið með þessu frumvarpi. Ég vona að flestir þingflokkar á Alþingi muni styðja þessa sjálfsögðu framkvæmd sem hefur nú þegar haft mjög mikil áhrif á veik atvinnusvæði á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.