131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Kynþáttafordómar og aðgerðir gegn þeim.

[13:43]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég held að þakka megi hæstv. ráðherra fyrir þær yfirlýsingar sem hér eru gefnar að það skuli vera í farvatninu stofnun innflytjendaráðs. Ég verð að segja að það verður athyglisvert að kynna sér niðurstöður skýrslu nefndarinnar sem hæstv. ráðherra var að fá í hendur í dag þannig að þetta er áfram efniviður í umræðuna.

Mér er minnisstæð setning úr sama fréttaviðtali og hv. þingmaður, málshefjandi í umræðunni, gerði að umtalsefni í ræðu sinni en þar sagði ung kona sem var spurð um ástæður vaxandi kynþáttafordóma eitthvað á þá leið að útlendingar einangruðu sig gjarnan frá okkur Íslendingum, gæfu sig eingöngu að fólki af eigin þjóðerni.

Elfa Björk Sverrisdóttir skrifaði viðhorfsgrein í Morgunblaðinu 8. apríl sl. Þá hafði sama frétt vakið athygli hennar. Hún leggur það til umræðunnar að orðið „gestrisni“ sé lykilatriði varðandi fordóma. Hún bendir okkur á að taka gestgjafahlutverkið alvarlegar en við gerum nú, hvetur okkur til að vera duglegri við að bjóða heim fólki. En þó að krafan um að útlendingar aðlagist okkur sé hávær er ljóst að þar sem unnið hefur verið markvisst að gagnkvæmum samskiptum fólks af ólíku þjóðerni hefur gengið best. Má nefna þjóðahátíðir og fjölmenningarsetrin sem dæmi um það.

Við hæstv. ráðherra vil ég segja þetta: Þrátt fyrir þjónustusamninga þá sem hann getur um í ræðu sinni þurfum við að efla samstarfið við Alþjóðahús, við mannréttindaskrifstofuna og frjáls félagasamtök sem starfa á þessum vettvangi, ekki síst við samtök Íslendinga af erlendum uppruna. Ég held t.d. að lífsnauðsynlegt sé að virkja kennara og nemendur í grunnskólum. Þar er til staðar þekking sem þarf að hjálpa til við að skila sér út í samfélagið.

Hlustum og opnum augun, vinnum markvisst að stefnumótun, setjum okkur ákveðin markmið sem við sameinumst um að vinna að, t.d. með skipulögðu átaksverkefni til 4–5 ára og skoðum svo hvort okkur verður ágengt. En umfram allt, virkjum skapandi krafta þeirra sem eru nú þegar að vinna að málefnum útlendinga og snúum þróuninni við.