131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Kynþáttafordómar og aðgerðir gegn þeim.

[13:57]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir málefnalega og góða umræðu um málefni innflytjenda og aukna fordóma í samfélaginu. Það eru vissulega jákvæðar og góðar fréttir að til standi að stofna innflytjendaráð. Það er mjög mikilvægt að þess sé gætt að fulltrúar innflytjenda komi þar að og eigi sæti í ráðinu og vinni með í allri stefnumótun sem að þessum málum lýtur. Það er vissulega margt vel gert, vilji til stefnumörkunar er jákvæður og kynnt innflytjendaráð eru góðar fréttir sem vonandi verða okkur öflugt vopn í baráttunni gegn fordómunum, óttanum og hræðslunni sem sumir upplifa í garð innflytjenda og útlendinga.

Það má einnig fullyrða að hin umdeilda löggjöf um útlendinga, sem ríkisstjórnin setti í fyrra, sé til þess fallin að einangra útlendinga og gera þá að sérhópi. Sú löggjöf var ekki æskileg. En það skiptir öllu að vinna gegn því að innflytjendur einangrist í samfélaginu, séu utangarðs, og það skiptir öllu að þeir læri íslensku. Íslenskukennsluna verður að bæta, fjölga námsleiðum, námsgögnum, verja til þess fjármagni og styðjast við það skilgreinda hlutverk t.d. sem Ríkisútvarpið hefur í þessum efnum. Við þurfum að gera útlendingunum kleift að taka þátt í samfélaginu með því að læra okkar flókna tungumál og það er ekki óeðlilegt að stjórnvöld verji til þess auknum fjármunum þegar að þessum málum kemur.

Það er líka mikilvægt að Íslendingar séu fræddir um það nýja umhverfi sem fjölmenningarsamfélagið býður upp á, bæði eldra fólk og yngra. Við berum öll ábyrgð á fordómum og stjórnvöld þurfa að taka þátt í því að grafast fyrir um viðhorfin og orsakir fyrir viðhorfunum. Þá tel ég einnig, eins og áður hefur komið fram, mikilvægt að gerð verði ítarleg rannsókn á aðstæðum innflytjenda og viðhorfum í þeirra garð eins og sú könnun sem hér um ræðir er vissulega þáttur af. Við þurfum að þekkja ástæðurnar og orsakirnar. Einungis þannig vinnum við gegn kynþáttafordómum og aukningu þeirra.