131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[14:17]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það skipti gríðarlegu máli með svona framkvæmdir á hvaða tíma þær gerast. Hvort sem það er viðkomandi aðili fyrirtækis sem stendur að þeim eða ríkið, þá hefur það áhrif inn í efnahagslífið og það ætti hæstv. ráðherra að vita.

Í forsendum fjárlaga sem ég er hér með fyrir þetta ár er greint frá því að ekki er gert ráð fyrir þessum seinni stækkunum í þeim forsendum. Hins vegar er gert ráð fyrir gengisvísitölunni 125 í forsendum fjárlaga. Hún er nú niður undir 110. Rökin er m.a. færð fyrir því, það eru stóriðjuframkvæmdirnar. Í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að stýrivextir Seðlabanka fari hæst í 7,5%, þeir eru nú þegar komnir yfir 10%.

Að mínu viti verður því ekki hjá því komist að horfa á tímasetningar á svona stórum verkum með hliðsjón af efnahagsástandinu á hverjum tíma, annað væri fullkomlega óábyrgt. Eins og stendur í forsendum fjárlaga er minnst á þessa miklu þenslu sem skapist af stóriðjuframkvæmdunum og segir þar að þegar sé hafin tilfærsla á útgjöldum og verulega verði dregið úr framkvæmdum á næstu og þarnæstu árum. Sem við upplifum að er fyrst og fremst í vegaframkvæmdum. Þetta stendur allt hér á prenti í forsendum fjárlaga, frú forseti.