131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[14:22]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti gott að heyra hvernig hæstv. ráðherra svaraði. Ég tel reyndar að það sé einboðið að menn skoði möguleikana á að breyta þessu. Þeir eru tveir að mínu viti. Önnur leiðin er sú að sjá til að sveitarfélög sameinist. Þá leið hef ég margoft bent á. Ég hef lagt til að íbúalágmarkið verði hækkað upp í þúsund. Það mundi leysa vandamálið á öllum stöðunum þar sem vandinn er. Það hefur hins vegar ekki hlotið náð fyrir augum þingmanna í sölum Alþingis.

Hin leiðin er að endurskoða skattlagningu með svipuðum hætti og gert var áður, þ.e. að þessi sérstöku fyrirtæki verði þá skattlögð svipað og með landsútsvari áður og þeim fjármunum verði deilt út með einhverjum tilteknum hætti sem verði til þess að þeir lendi á þeim atvinnusvæðum þar sem þeir eiga heima. Mér fyndist það að sækja vatnið yfir lækinn að fara þá leið. Ég tel að það að sveitarfélögin taki atvinnusvæðin yfir sjálf miklu eðlilegri niðurstaða og að stjórnvöld eigi að bera ábyrgð á því að það gerist. Það er hægt og ég legg það eindregið til að menn horfi fast á þá leið.