131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[15:08]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér datt í hug, svona í fljótu bragði, að bera fram tvær spurningar til hæstv. sjávarútvegsráðherra sem var að mæla fyrir frumvarpi til laga um enn eina breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar.

Fyrir það fyrsta er nefnt í athugasemdum við lagafrumvarpið að breytingartillögur um hvernig meðafli skuli metinn til aflamarks megi rekja til tillagna frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og umgengnisnefnd. Mig langar til að spyrja ráðherra um hvernig standi á því að þessar breytingartillögur hafi borist frá þessum aðilum, hver hafi beðið um þær og einnig um umgengnisnefnd. Hverjir eru í umgengnisnefnd, hvaða aðilar eru það og hver skipar í þá nefnd?

Annað sem mig langar til að spyrja um varðar það að flokka meðala frá afla um borð í skipunum. Hefur farið fram einhver vinna við að athuga möguleikana á því hvort það sé raunverulega tæknilega mögulegt að flokka þennan afla frá þegar afla er dælt um borð. Þetta er reyndar að mestu leyti síld og kolmunni sem verið er að veiða þegar meðafli kemur með, kannski líka eitthvað þegar elst er við loðnuna. En gæti ég fengið svar frá hæstv. ráðherra við þessum spurningum?