131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[15:15]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57 frá 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Í raun erum við að fara yfir tvær breytingar sem verið er að gera á þessum lögum. Það er ekki í fyrsta skipti sem þeim lögum er breytt því að eins og með önnur lög er lúta að sjávarútvegi og starfsskilyrðum þar, aflaheimildum o.s.frv., virðist vera sífelld þörf fyrir að breyta lögunum aftur og aftur og er stundum jafnvel verið að breyta sömu lögum nánast tvisvar í mánuði.

Hvað varðar þær tvær breytingar sem verið er að tala um núna þá er í fyrsta lagi verið að gera sérstaka undanþágu frá því hvernig fara skuli með meðafla þeirra skipa sem veiða uppsjávarfisk og í öðru lagi að gera skyldu útgerðar og skipstjóra fiskiskipa meiri við að fylgjast með stöðu aflaheimilda á skipum sínum og þá með hliðsjón af þeim úthlutuðu aflaheimildum sem á skipunum eru.

Það skýtur svolítið skökku við að sjá að nú telji menn þörf á að setja sérstakar reglur eða gera sérstaka undanþágu frá meðferð meðafla fyrir skip sem stunda veiðar á uppsjávarfiski. Nú á samkvæmt lögum þessum að gera það löglegt að flokka ekki fisk eftir tegundum um borð í skipunum eða við löndun heldur má áætla hvaða magn af hverri tegund sem er innan um þá megintegund sem verið er að veiða. Þetta gildir þó eingöngu fyrir skip sem stunda uppsjávarveiðar, skip sem stunda veiðar á loðnu, síld og kolmunna.

Með þessum breytingum er verið að fara alveg nýjar leiðir, frú forseti, sem erfitt er að sjá hvað geta kallað fram. Í því sambandi veltir maður fyrir sér jafnræðissjónarmiðum. Hvað ef aðrar útgerðir eða aðrar gerðir skipa telja erfitt að fara að flokka meðafla frá meginafla sínum? Er hægt að kalla eftir því að settar verði sérstakar reglur um hvernig flokka eigi meðafla í netaveiðum eða ef skip er á þorskveiðum og fær aðrar tegundir, má þá kalla eftir sérreglum um hvernig flokka á þann fisk sem ekki er þorskur? Hingað til hefur gilt hið sama, a.m.k. í lögunum, hvað varðar meðferð á meðafla og á því að halda hverri tegund fyrir sig aðskildri, annaðhvort strax við veiðar um borð í skipunum eða við löndun. Hvaða reglur gilda í dag um þetta efni?

Í 9. gr. gildandi laga segir, með leyfi forseta:

„Skipstjóra fiskiskips er skylt að halda afla um borð í skipi sínu aðgreindum eftir tegundum. Verði því ekki komið við vegna smæðar báts skal afli aðgreindur eftir tegundum við löndun. Skipstjóra fiskiskips er skylt að láta vigta hverja tegund sérstaklega. Ákveði ráðherra á grundvelli laga um stjórn fiskveiða að fiskur undir tiltekinni stærð eða þyngd teljist aðeins að hluta með í aflamarki skal hann setja reglur um hvernig að frágangi hans um borð í veiðiskipi og vigtun skuli staðið. Skipstjóra ber að tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann berist til vigtarmanns.“

Með frumvarpi þessu er verið að bæta við sérstakri grein, sérstakri undanþágu hvað þetta varðar fyrir skip sem stunda veiðar á uppsjávarfiski. Í texta frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Við veiðar á uppsjávarfiski er ekki skylt að skilja meðafla frá uppsjávarafla.“ — Síðan segir: „Meðafli reiknast þó til aflamarks viðkomandi fiskiskips, en ráðherra setur reglur um hvernig móttakandi afla eða vigtarleyfishafi skuli standa að sýnatöku og útreikningi meðafla við löndun á uppsjávarfiski.“

Hér er talin sérstök ástæða til að taka fram að meðafli, þ.e. aðrar tegundir en verið er að sækjast eftir, aðrar tegundir sem koma í þessi veiðarfæri en loðna, síld og kolmunni, skuli teljast til aflamarks skips. Maður hlýtur því að spyrja, frú forseti: Hvaða reglur hafa gilt hingað til? Ég hélt að það væru lög í landinu sem segðu að allur afli sem kæmi um borð í fiskiskip teldist til aflamarks viðkomandi skips, að ekki væru neinar sérreglur sem segðu að skip sem stunda veiðar á uppsjávarfiski hefðu leyfi til að veiða þorsk eða ýsu, ufsa eða hvað annað án þess að leggja til aflamark. En hér segir í texta sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er að leggja fram að meðafli reiknist til aflamarks viðkomandi skips. Talin er ástæða til að taka það sérstaklega fram.

Því er rétt að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur það verið þannig að aðrar tegundir sem komið hafa í veiðarfæri skipa sem stunda uppsjávarveiðar hafi ekki verið dregnar frá aflamarki viðkomandi skips eða þá að útgerðin hafi þurft að leigja sér eða kaupa aflaheimildir til að leggja á móti þeim afla sem komið hefur með í troll eða nót?

Reyndar hafa verið uppi þrálátar sögur um það mjög lengi að sérstakar reglur virðast gilda um meðafla í uppsjávarfiski. Það hafa verið þrálátar sögur um að í kolmunnatroll sérstaklega hafi komið talsvert mikið af öðrum fiski sem hafi bara verið landað sem kolmunna til bræðslu, allt aðrar reglur en gilda um öll önnur veiðarfæri og allar aðrar útgerðir eða útgerðarflokka.

Mér finnst, frú forseti, að hæstv. ráðherra verði að svara þessu. Hafa menn komist upp með það hingað til og án viðurlaga að veiða þorsk eða annan botnfisk án þess að leggja kvóta á móti? Hafa starfsmenn ráðuneytisins eða Fiskistofu snúið að því blindu auga á sama tíma og smærri útgerðarmenn, smærri skip og bátar eru hundeltir fyrir nokkra fiska eða nokkur kíló sem reynast koma í veiðarfæri þeirra eða þeim verður á að landa af tegund sem þeir eiga ekki kvóta fyrir? Gilda ekki sömu lög um smærri útgerðir í landinu og stórútgerðir sem veiða uppsjávarfisk? Eins og þetta er orðað í frumvarpi hæstv. ráðherra hlýtur maður að draga þá ályktun að hingað til hafi meðafli ekki þurft að dragast af aflamarki viðkomandi skipa. Er því full ástæða til að hæstv. ráðherra svari því hvernig þetta hefur verið. Er ástæðan fyrir þessu orðalagi sú að menn ætli loks að fara að taka á því að þessi stóru skip sem fara með flottroll um stór hafsvæði og taka allt sem fyrir verður, geti ekki hagað sér með þeim hætti lengur?

Síðan er talað um gjaldtöku fyrir ólöglegan afla. Eitt er að leggja kvóta á móti þeim fiski sem menn veiða. En ef menn veiða fisk sem þeir eiga ekki kvóta fyrir og geta ekki lagfært aflamarksstöðu sína með þurfa þeir að greiða sektir vegna ólögmæts afla sem gengur í verkefnasjóð sjávarútvegsins. Í 1. gr. frumvarpsins sem við ræðum hér segir, með leyfi forseta:

„Komi til gjaldtöku á grundvelli laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, vegna fisktegunda sem veiðast sem meðafli við veiðar á uppsjávarfiski skal gjaldið þó aldrei vera lægra en nemur 70% af meðalfiskverði sömu tegundar í næsta mánuði fyrir gjaldtöku.“

Aftur veltir maður því fyrir sér hvort verið sé að leggja til að sérreglur gildi um þennan flokk báta eða skipa. Hvaða reglur gilda um ólögmætan afla annarra, hvernig er hann verðlagður ef mönnum verður á að koma með afla í land sem þeir eiga ekki aflaheimildir fyrir? Hvað segja lög nr. 37/1992 um þetta sérstaka gjald vegna ólögmæts sjávarafla? Þar segir, frú forseti, í 3. gr.:

„Gjald skv. 1. gr. skal nema andvirði gjaldskylds afla.“ — Ekki 30%, 40%, 50% eða 70%, heldur andvirði þess afla sem landað er.

„Ef ekki verður staðreynt hver sú fjárhæð hefur verið skal gjaldið nema því verði sem fengist hefur fyrir samsvarandi afla á þeim stað og því tímabili sem hann barst að landi. Verði gjaldskyldur afli ekki heimfærður til ákveðins tímabils skal verðleggja hann á grundvelli meðalverðs fyrir samsvarandi afla á viðkomandi fiskveiðiári.

Ef ekki verður staðreynt af fyrirliggjandi gögnum hvert hafi verið magn eða andvirði gjaldskylds afla skal það áætlað eftir því sem segir í 5. gr.“

Þá fer maður að velta fyrir sér hvað 5. gr. gildandi laga segir um þetta efni. Sú grein heimilar Fiskistofu að krefja útgerðarmenn, skipstjórnarmenn, fiskverkendur og fiskseljendur um öll nauðsynleg gögn og upplýsingar sem þeir geta látið í té þannig að Fiskistofa geti reynt að meta verðmæti þessa ólögmæta afla.

Segja má að meginreglan hvað þetta allt varðar sé sú að komi menn með ólögmætan afla að landi ber þeim að greiða gjald sem nemur verðmæti þess fisks sem komið er með umfram heimildir.

Í frumvarpi hæstv. ráðherra varðandi uppsjávarskipin, sem alltaf virðist þurfa að gera sérstakar undantekningar og hafa sérstakar reglur fyrir, er gert ráð fyrir að 70% af verðmæti þess afla sem umfram er, ef hann kemur sem meðafli og ekki eru til aflaheimildir fyrir, skuli vera það gjald sem greiða skuli. Gott og vel. Látum okkur segjast að það sé allt í lagi að hafa öðruvísi reglur hvað þetta varðar en hvað þýða 70% af meðalfiskverði? Hvað eru 70% af meðalfiskverði fyrir þorsk sem kemur að landi sem meðafli í flottrolli hjá loðnuskipi eða kolmunnaskipi? Er nóg að vísa í eitthvert þorskverð sem gildir hjá útgerðinni þegar verið er að selja fisk af skipi útgerðar til fiskvinnslu útgerðarinnar, er það meðalfiskverðið sem miða á við? Á að miða við viðskipti milli skyldra aðila? Á að miða við verð í beinum viðskiptum milli óskyldra aðila þar sem útgerðarmaður selur fiskverkanda beint sömu tegund á sama tímabili eftir einhverjum samningi sem gerður er þeirra á milli? Eða á að miða við frjálst fiskverð á fiskmörkuðum? Er það meðalverðið sem miða á við?

Í þessu frumvarpi til laga stendur ekkert um þetta efni heldur er eingöngu talað um 70% af meðalfiskverði og það hlýtur að þurfa að skýra hvaða verð það er. Af hverju er verið að tala um 70% af meðalfiskverði og af hverju er verið að tala um sérstakar reglur fyrir skip sem stunda uppsjávarveiðar? Ef við skoðum aðeins athugasemdirnar eins og þær koma fram í greinargerð með frumvarpinu þá segir, eins og hæstv. ráðherra las hér upp í framsögu sinni:

„Í fyrsta lagi er ljóst að mörg skipanna eru vanbúin til að hirða þennan fisk, halda honum aðskildum frá öðrum afla og ganga þannig frá honum að hann nýtist til manneldis.“

Er þá nóg ef í gildi eru lög í landinu um hvernig fara á með ákveðna hluti að lýsa því yfir að maður sé vanbúinn til að fara eftir þeim? Er þá nóg fyrir mig ef ég keyri á 130 km hraða að lýsa því yfir að ég sé á vanbúnum bíl til að bremsa? Að um mig eigi að gilda einhverjar sérstakar reglur af því að ég geti ekki farið eftir lögunum vegna þess að sá búnaður sem ég er með í höndunum sé ekki nægilega góður? Ég kannast ekki við að trillukarlar eða litlir netabátar eða línubátar geti lýst því yfir, hvorki við hæstv. sjávarútvegsráðherra né embættismenn Fiskistofu þegar þeir koma, að þeir hafi ekki getað farið eftir lögunum sem gilda vegna þess að þeir væru vanbúnir. Ætli hæstv. ráðherra kæmi þá hér í sali Alþingis með frumvarp sem segði að þessi eða hinn þyrfti ekkert að fara eftir lögunum eða að setja þyrfti sérstök lög fyrir þennan eða hinn af því að hann hefði verið vanbúinn til þess að fara eftir þeim lögum sem giltu? Hvers konar rök eru þetta í greinargerð með frumvarpi til laga?

Ég hélt að skipin sem stunduðu uppsjávarveiðarnar væru að mestu leyti nýjustu skipin í flotanum, smíðuð eða keypt sérstaklega til að stunda þær veiðar. Verða menn þá ekki að láta smíða skip eða kaupa skip sem geta stundað veiðar í samræmi við þau lög sem gilda hverju sinni og vera með veiðarfæri sem gera þeim kleift að stunda veiðar í samræmi við gildandi lög? Nei, frú forseti, að lýsa því yfir að breyta verði lögum vegna þess að þeir sem fara áttu eftir þeim væru vanbúnir til að gera það, finnst mér alveg með eindæmum.

Hver eru rökin fyrir 70 prósentunum, 70% af meðalfiskverði fyrir meðafla? Jú, í sömu greinargerð segir, með leyfi forseta:

„Í öðru lagi liggur fyrir að stundum er sá fiskur sem fæst sem meðafli litlu eða engu verðmætari en bræðsluafli bæði vegna lítilla gæða og smæðar. Því er lagt til að tekin verði upp aðferð til þess að meta meðafla með nákvæmum hætti og reikna hann til aflamarks viðkomandi fiskiskips.“

Ef ég stunda veiðar með þannig veiðarfærum að ég eyðilegg fiskinn sem ég veiði á að gera sérstaka undanþágu fyrir mig. Þá á ég ekki að þurfa að greiða sérstakt gjald vegna ólögmæts afla. Nei, auminginn hann Jón garmurinn er með þannig veiðarfæri að hann eyðileggur aflann og það eru engin verðmæti í honum loksins þegar hann kemur um borð í skipið hans.

Hvaða skilaboð er verið að senda með þessu? Hefði þá átt að segja við eigendur og skipstjóra netabáta sem komast ekki í net vegna þess að veður er leiðinlegt og erfitt og bræla í langan tíma og fiskurinn eyðileggst að þeir geti vísað til þess að þeir séu með svo verðlítinn fisk í höndunum að það þurfi að hafa einhverjar sérstakar reglur um hann? Ekki mega þeir henda honum í hafið, ekki leyfa reglurnar það. Þeir verða að koma með hann í land. Ég veit að þeir geta farið með hann í svokallaðan hafróafla, en segjum að þeir séu búnir að nýta þá heimild nánast að fullu, ætli þeir verði þá ekki að koma með hann og leggja á móti kvóta á fullu verði? Ég reikna með því. Ég efast um að þeir geti sagt að fiskurinn sé svo skemmdur að helst væri að fá að borga sekt fyrir ólögmætan afla og borga lægra verðmæti en raun ber vitni.

Frú forseti. Það er svolítið undarlegt ef maður horfir á 1. gr. frumvarpsins hvernig hæstv. ráðherra ætlar að fara að setja sérstakar reglur um meðafla og verðmæti ólögmæts afla fyrir einn flokk skipa. Við hljótum þá að skoða það hvort gilda eigi sérstakar reglur um annan flokk skipa, færabáta og línubáta t.d. Við getum farið yfir það hvort aðstaðan um borð í bátunum kalli á einhverjar sérstakar greinar í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Ef trillukarlar geta ekki haft ýsu um borð eigum við þá ekki bara að breyta lögunum? Þeir geti komið með aflann eins og þeim dettur í hug o.s.frv.

Þó gangi mjög á tíma minn vil ég aðeins skoða það sem segir í greinargerðinni með frumvarpinu. Þar er talað um að við veiðar á uppsjávarfiski geti komið upp þær aðstæður að meðafla gæti í mismiklum mæli, sem er alveg rétt. Helst komi meðafli í troll við veiðar á uppsjávarfiski þegar þær ganga verr vegna þess að fiskurinn er dreifður og togtíminn því langur.

Þarna erum við kannski komin að annarri og mikið stærri spurningu en við getum velt fyrir okkur varðandi frumvarpið og það er flottrollið sem verið er að nota við uppsjávarveiðar, þetta gífurlega veiðarfæri sem hin stóru og öflugu skip draga á eftir sér og taka dreifðan afla um allan sjó. Maður heyrir jafnvel um að verið sé að draga veiðarfærin á eftir skipunum í tuga tíma um ekkert smávegis hafsvæði. Og hvað gleypa veiðarfærin á þeim tíma? Er það bara kolmunni, loðna og síld? Ég leyfi mér að efast um að það séu einhver svæði í sjónum sérstaklega þannig merkt. Ég reikna með að þegar búið er að draga þetta um hundruð ferkílómetra svæði aftan í hinum stóru og öflugu skipum að ýmislegt komi í trollin. Það hlýtur að fara að koma að því og það hlýtur að vera krafa að menn fari að velta fyrir sér þessu veiðarfæri, flottrollinu við uppsjávarfiskveiðar, velta fyrir sér bæði skaðsemi veiðarfærisins og hvað það er að veiða, ekki að það eigi að gilda aðrar reglur en gengur og gerist um það sem komi í það.

Frú forseti. Ég hef ekki komist í að fara yfir 2. gr. frumvarpsins á þeim stutta tíma sem veittur er við 1. umr. lagafrumvarpa. Ég reikna með að gera það í seinni ræðu minni, en óska eftir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra svari þeim spurningum sem ég bar til hans þannig að ég geti brugðist við í seinni ræðu. Mér finnst blasa við hvað varðar uppsjávarskipin í frumvarpinu að það er bara pöntuð grein, þetta er pantað frumvarp af þeim sem stunda þessar veiðar, pantað til að setja löglegan stimpil á það sem þeir hafa verið að gera sem allir sem á hafa horft hafa velt fyrir sér hvernig í ósköpunum fái að viðgangast ár eftir ár að þeir geti komið að landi og um þá gildi allt aðrar reglur og um þann afla sem kemur að landi í þessum skipum en öðrum.