131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[15:38]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ákaflega slappt svar hjá hæstv. ráðherra og svaraði engu af því sem ég spurði um.

Gilda sérlög um aðrar veiðar? Já, það gilda sérlög um aðrar veiðar en það eru lög sem taka til veiðanna. Ég kannast ekki við að það gildi sérlög um umgengni um nytjastofna sjávar eftir því í hvaða veiðarfæri fiskur er veiddur. Það er kannski rétt að hæstv. ráðherra upplýsi mig um það. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57 frá 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Við erum ekki að ræða fiskveiðistjórnarlögin sem taka til veiðarfæra og sérstakra útgerðarflokka.

Það getur vel verið að það sé þrálátur orðrómur um að sá sem hér stendur aki stundum of hratt og ég ætla hvorki að játa því né neita í ræðustól Alþingis. En hvað varðar meðafla í flottroll hjá kolmunnaskipunum er það meira en þrálátur orðrómur. (Gripið fram í.)

Hafa ekki komið upp dæmi þar sem lögreglumenn sjávarins, embættismenn Fiskistofu, hafa séð meðafla í talsvert miklum mæli með kolmunna og ákveðið að gera ekkert í málinu og aflinn verið látinn renna til bræðslu með meðaflanum í? Hefur þetta ekki komið fyrir? Getur hæstv. ráðherra svarað mér því? Þetta er meira en þrálátur orðrómur um að sá sem hér stendur aki of hratt. Lögreglumenn hafa staðið menn að þessu og sleppt því í gegn, látið aðrar reglur gilda um þetta en gengur og gerist með aðra og vísa ég þá í smákallana sem hirtir eru fyrir þrjá steinbíta eða 7 kíló af þorski.