131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[15:40]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þrálátur orðrómur var orðfæri sem hv. þingmaður notaði sjálfur. Hann hóf máls á eigin akstri, það var ekki ég sem hóf þá umræðu, hann notaði þá samlíkingu í fyrstu ræðu sinni.

Vandamálið í þessu, og þá kemur að 70 prósentunum sem hv. þingmaður var að tala um, er að afli sem hefur veiðst á þennan hátt hefur yfirleitt verið svo illa farinn þegar hann hefur verið kominn um borð að hann hefur haft nánast sama verðgildi og bræðsluafli. Það hefur því ekki skipt neinu máli fyrir útgerðina hvort aflinn væri skráður og færi með bræðsluaflanum eða skráður sérstaklega, vegna þess að sektin fyrir að standa þannig að málum byggðist á því hvert væri hið raunverulega verðmæti aflans og þá til bræðslu, en það var ekki um neina sekt að ræða. Þess vegna er hækkunin í 70% af meðalverðinu það sem raunverulega skiptir máli í þessu við hliðina á því að skrá aflann til sinnar réttu tegundar. Það þýðir að þrátt fyrir að verðið sé verðið á bræðsluaflanum þarf að borga 70% af meðalverði sömu tegundar og ef það er þorskur er það býsna mikið hærra en bræðsluverðið.

Hv. þingmaður ætti því í hneykslan sinni líka að skoða tölurnar og átta sig á því að þær breytingar sem verið er að leggja til munu leiða til miklu betri umgengni um auðlindina en þrálátur orðrómur hefur staðið um að undanförnu.