131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[15:42]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst standa upp úr umræðunni sem við höfum átt eða einræðu, leyfi ég mér að segja, milli mín og hæstv. sjávarútvegsráðherra að aðrar og mýkri reglur gilda um það sem snýr að uppsjávarveiðunum en öðrum veiðum þegar kemur að því að fjalla um umgengni um nytjastofna sjávar.

Ég sé, frú forseti, að ég á eftir í andsvari við hæstv. ráðherra eina og hálfa mínútu og mér var tilkynnt áðan að úr því að enginn ræðumaður kemur upp — og bið ég hv. ræðumenn að hinkra aðeins í salnum — á eftir mér, ég er búinn að halda ræðu í 20 mínútur sem mína fyrstu ræðu við 1. umr. og eingöngu búinn að tala um aðra greinina af tveimur í frumvarpinu, og mér er tilkynnt að einhver þingmaður verði að koma í pontu, annars fái ég ekki að koma aftur. Ég vil því óska eftir því við hv. þingmenn sem sitja í salnum að þeir biðji um orðið, þó þeir tali í hálfa mínútu eða innan við hálfa mínútu, þannig að mér gefist kostur á að ræða aðeins um það sem ég varð að sleppa í fyrstu ræðu minni. (Gripið fram í.)

Þetta stendur kvitt og klárt. Frumvarpið er lagt fram eingöngu vegna óska þeirra sem stunda uppsjávarveiðar. Það stendur út af þegar maður fer í gegnum þetta. Það verður að setja sérlög um þetta veiðarfæri, um flottrollið sem sótar upp hverju sem fyrir verður til að útgerðarmennirnir sem stunda veiðarnar með sjóránsveiðarfærinu geti haldið því áfram og það er verið að setja á það löglegan stimpil.