131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

266. mál
[15:46]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem ég vænti að allflestum ef ekki öllum þingmönnum sé vel kunnugt. Það lýtur að þeirri stefnu okkar jafnaðarmanna sem við höfum fylgt eftir um langt árabil og áratuga skeið og varðar það að landið verði gert allt að einu kjördæmi.

Þetta mál er ekki í fyrsta sinn, eins og ég sagði, í sölum Alþingis og lýtur að því að gera kosningakerfi okkar gagnsætt, réttlátt og að þar gildi jafnræði, með öðrum orðum að eitt atkvæði þýði eitt atkvæði í raun og sanni.

Nú er kunnara en frá þurfi að segja að á öllum lýðveldistímanum höfum við búið við ýmiss konar ákvæði er varða kjördæmaskipan og kosningarrétt og ekki hefur alltaf verið réttlæti haft um hönd í því sambandi. Með síðustu breytingu sem gerð var 1999, og var kosið fyrst eftir í síðustu kosningum 2003, færðust þessi mál mun til betri vegar þannig að nú er svo komið að í þéttbýlinu á suðvesturhorninu er það þó þannig að eitt atkvæði er „aðeins“ helmingi veigaléttara en atkvæði í dreifðari byggðum, m.a. í Norðvesturkjördæmi. Í stjórnarskrá er einnig bundið að ef þetta misvægi atkvæða verður meira en einn á móti tveimur þá beri að flytja til þingmenn úr fámennari kjördæmum yfir til þeirra þar sem kjósendur eru flestir.

Við samþykktum þá tillögu á sínum tíma og töldum það vera skref í hina réttu átt en áskildum okkur allan rétt á sama tíma til að halda okkar ýtrustu stefnu til haga að landið verði eitt kjördæmi. Þar eru klár og kvitt og gild rök til staðar. Í því fyrirkomulagi næst fullkominn jöfnuður milli kjósenda og misvægi atkvæða er ekki lengur til staðar, í öðru lagi fá stjórnmálaflokkar að fullu þann þingmannafjölda sem atkvæði þeirra segja til um, í þriðja lagi, sem er ekki veigalétt heldur, hafa þingmenn heildarhagsmuni að leiðarljósi en ekki hugsanleg þröng kjördæmasjónarmið og í fjórða lagi, sem er ekki síður mikilvægt, er kosningakerfið þar með einfalt og auðskilið.

Vissulega eru gallar á þessu kosningakerfi eins og öllum öðrum. Sumir hafa á það bent að það auki á flokksræðið, þ.e. varðandi hina stærri flokka á borð við þá sem eru í þinginu í dag, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk, að það geti þýtt nánast sjálfkjör, þ.e. að prófkjör eða uppstilling flokkanna verði veigaþyngri en atkvæði kjósenda á kjördegi. Vissulega ber að taka slíkum ábendingum með athygli. Við flutningsmenn viljum hins vegar mæta þeim ágöllum með þeim hætti að gera breytingar á kosningalögum og gera kjósendum kleift á kjördegi að breyta röð á framboðslistum, þ.e. að fyrsti maður í uppstillingu gæti verið sá tuttugasti, hafa með öðrum orðum nánast tvö atkvæði á hendi, annars vegar að kjósa flokk og hins vegar einstaklinga. Þetta eru líka kunnar hugmyndir okkar jafnaðarmanna og miða að því að gera kosningakerfið þannig úr garði að vilji kjósenda komi fram í smæstu og stærstu atriðum. Það hlýtur að vera últímatum og hin ýtrasta krafa okkar sem á löggjafarþinginu erum í lýðræðisríki á borð við Ísland þar sem vagga — ekki vil ég segja lýðræðisins — en vagga a.m.k. þingsins í heiminum öllum er.

Nú veit ég gjörla, herra forseti, og geri það að mínum lokaorðum í þessari stuttu framsögu sem ég hef svo sem flutt hér áður, að þessi mál eru til umfjöllunar í einni ágætri nefnd sem stjórnarskrárnefnd heitir og þar munu menn væntanlega véla um þetta atriði ekki síst á meðal annarra. Ég held hins vegar að það sé auðvitað nauðsynlegt hvað þetta ákvæði stjórnarskrár varðar sem og önnur að þingið haldið þessari umræðu vakandi og áfram hér í þessu húsi og meðal allra landsmanna og að við lítum ekki þannig til að þessi ágæta stjórnarskrárnefnd sé bara með þennan kaleik og allt sé í steinaþögn á meðan úti í samfélaginu um þessi veigaþungu álitaefni sem þar eru uppi á borðum og hér eru uppi á borðum. Að lyktum er það auðvitað í þessu húsi sem við tökum hinar endanlegu ákvarðanir í þessum efnum, þ.e. hvað stjórnarskrá varðar og löggjöfina almennt.

Ég legg því á það áherslu, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu fái þetta frumvarp enn eina ítarlega og góða umfjöllun í nefnd — ég hygg að það sé allsherjarnefnd — og að þar komist menn að því með hægðinni að þetta er auðvitað hið eina skynsamlega skref í þessum efnum.