131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

266. mál
[15:52]

Guðjón Guðmundsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sem flutti hér sína framsöguræðu átti sæti í þeirri nefnd sem lagði til núverandi kjördæmaskipan sem var svo lamin í gegn á Alþingi með miklu harðfylgi í öllum flokkum. Mjög margir — ég segi nú ekki flestir — en mjög margir eru þeirrar skoðunar að þetta sé eitthvert allra vitlausasta mál sem samþykkt hefur verið á Alþingi og að núverandi kjördæmaskipan sé á allan hátt ómöguleg.

Það er nú svo að þó að þegar var verið að samþykkja þetta mæltu einhverjir þingmenn þessu bót þá finnst varla einn einasti þingmaður núna sem er ánægður með þetta, ekki einu sinni Reykvíkingarnir því að þeim finnst svo vitlaust að skipta Reykjavík.

Nú kemur þessi ágæti þingmaður fullur iðrunar og sér að hann hefur gert tóma vitleysu þegar hann lagði þetta til hérna um árið og nú á að leysa málið með því að gera landið allt að einu kjördæmi. Ekki held ég að það væri nú skárra og ég held að það séu nú flestir þeirrar skoðunar sem um þetta hafa hugsað að það mundi leiða til þess að flokksræðið yrði algjört. Flokksmaskínurnar í Reykjavík mundu ráða meira og minna uppstillingu og landsbyggðin yrði enn undir. Hún varð mjög undir við þessa kolvitlausu kjördæmaskipan sem var samþykkt hérna síðast og þetta er ekki leiðin til að bæta úr því. Ég hvet hv. þingmann, sem ég veit að er sanngjarn maður og umburðarlyndur, að hugsa málið upp á nýtt og beita sér fyrir því með fleiri góðum mönnum að skipuð verði ný nefnd sem komist að skynsamlegri niðurstöðu en síðast. En ég er sannfærður um að sú niðurstaða á ekki að vera sú að gera landið allt að einu kjördæmi.