131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

266. mál
[15:57]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þm. Guðjón Guðmundsson verðum sennilega seint sammála í þessum efnum. Ég hef heyrt þessi uppnefni hans á núverandi kjördæmaskipan og hann talaði skýrt og greinilega fyrir sínum sjónarmiðum þegar málið var afgreitt á sínum tíma. Ég kann ekkert um það að segja hvort þetta hafi verið knúið í gegn í hans þingflokki með einhverjum látum. En menn fóru frjálsbornir í það í mínum flokki og samþykktu þetta flestir með bros á vör, aðrir kannski eilítið súrir.

Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að ég hafi ekki neinn skilning á því hvernig háttar til störfum þingmanna úti á landsbyggðinni. Það er alrangt. Ég hef einmitt reynt í mínum störfum að horfa út fyrir mitt kjördæmi og geri það sem snaran þátt í mínum þingmannsstörfum að fara út fyrir minn heimagarð, fara út um land, hitta kjósendur í öðrum kjördæmum, og það er auðvitað skylda okkar allra. Ég vil minna hv. þingmann á það, kunni hann ekki skil á því sem ég held að hann geri þó, að sá sem hér stendur var nú frambjóðandi í Austurlandskjördæmi hinu gamla þar sem þjóðvegurinn var enda á milli um 770 kílómetra og skynjaði það auðvitað vel að þeim tíma, sem var 1983, að þetta var allt býsna erfitt. En samgöngur hafa gjörbreyst á þessum tíma og eru með allt öðru móti.

Má ég rifja það upp fyrir hv. þingmanni, frú forseti, að 1959 þegar menn fóru úr einmenningskjördæmunum yfir í þetta átta kjördæma fyrirkomulag, hlutfallskosningu, í hverju lá helsta andstaðan við þær breytingar á þeim tíma í þessum sal, hjá þeim sem hér voru? Hún lá í því að svo langt væri á milli, að samgöngur væru svo erfiðar og stórkostlegar. Auðvitað hefur þetta allt saman gjörbreyst. Það vildu allir halda í, a.m.k. hv. þingmaður, það fyrirkomulag sem þá var, þ.e. um síðustu aldamót. Svona breytast nú tímarnir, frú forseti, og ég held að við þingmenn verðum að breytast með. Þannig er það nú bara.