131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

266. mál
[16:04]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Rétt til að halda því til haga, af því að flokkur hv. þingmanns kennir sig við jafnaðarmennsku, þá kennir flokkur okkar framsóknarmanna sig við framsækni og samstarf. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég styð þessa hugmynd. Hún er einmitt sú að við getum starfað meira saman, þingheimur sem einn hópur, að hagsmunum fólks um allt land. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði áðan, að menn skipta sér hér í flokka og skipta sér auk þess eftir kjördæmum. Svo er alþekkt þetta kjördæmapot. Þess sáust best merki í umræðu um samgönguáætlunina, sem mig minnir að hafi verið í fyrradag. Þá voru ekki fimm flokkar á þingi heldur voru þeir allt í einu tveir. Það var höfuðborgin og þéttbýlið. Í þeirri umræðu mátti ætla að það væru sitt hvorir hagsmunirnir eða að hagsmunirnir stönguðust á.

Með þessa litlu þjóð, í þessu tiltölulega strjálbýla landi, innan við 300 þúsund manns, finnst mér það stundum hlægilegt að við búum til vandamál og girðingar þegar engin ástæða er til. Hagsmunir okkar fara meira og minna saman. Við erum meira eins og ein stór fjölskylda á mælikvarða annarra og stærri þjóða.

Ég fagna bara enn og aftur, frú forseti, þessu máli hv. þingmanns. Hugmyndin á bak við það, rökin á bak við það, falla að skoðunum mínum. Svo eigum við eftir að sjá hvort það hefur meirihlutastuðning í endurskoðunarvinnu stjórnarskrárnefndar og í vinnu viðkomandi þingnefndar. Ég er mjög hlynnt því að menn séu framsæknir og framsýnir og þeim sé ekki nuddað upp úr því þó þeir hafi stutt þá kjördæmaskipan sem við kusum eftir síðast.