131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[16:46]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef einmitt reynt að benda á að við ættum frekar að fara hina leiðina og aflétta þessum hömlum og ákvæðum sem hvíla á þeim sem eru hundeltir í dag, eins og menn hafa sagt. Við ættum að slaka á þessum stífu kvótakröfum í botnfiskveiðunum. Við vitum það af reynslunni að ef það eru sett lög þá er mjög erfitt að fella þau úr gildi. Verði þessi lög sett á núna mun það taka mánuði eða ár að fella þau úr gildi, jafnvel þó að við gerum okkur grein fyrir því að þau séu vitlaus og það beri að afnema þau. Það er bara alltaf þannig. Við sjáum hvernig það er með ríkið, þá risaeðlu, að hún er mjög sein í svifum.

Ég geri það enn og aftur að tillögu minni, við lok þessarar umræðu, að menn staldri aðeins við og taki málið til vandlegrar íhugunar og láti hreinlega af þessari vitleysu. Þetta eykur bara enn á delluna í kerfinu og er öllum til óþurftar, sama hver það er. Þetta bitnar á öllum, útgerðarmönnum, sjómönnum, fólkinu í landi, okkur öllum.

Þetta frumvarp á að fara inn í sjávarútvegsnefnd og sofna þar svefninum langa.