131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[16:57]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég get ekki svarað því hvort tillögurnar muni liggja fyrir þegar nefndin fjallar um málið. En þeir sem hafa kynnt sér mál sem þessi vita að það eru ákveðnar stærðfræðilegar aðferðir sem notaðar eru við sýnatöku af þessu tagi. Það er farið eftir því hversu mikla nákvæmni menn vilja hafa í niðurstöðunum sem fram koma. Þetta er byggt á sömu stærðfræðilegu aðferðunum og úrtaksvigtunin sem hv. þingmenn kannast við.

Verði tillögurnar hins vegar tilbúnar á meðan nefndin er að störfum þá verður það að sjálfsögðu kynnt fyrir nefndinni. Ef ekki þá verður það auðvitað ekki mögulegt en þetta þarf eðlilega að vera tilbúið fyrir gildistöku laganna.