131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[17:04]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst ekki laust við að það sé þversögn í málflutningi hv. þingmanns, að telja að það sé einfaldara að beita svæðalokunum sem þurfa að byggjast á auknu eftirliti en að byggja það í kerfið að sjómenn og útgerðarmenn hafi ekki hag af því að veiða á slóðum þar sem hætta er á að meðafli sé innan um þann afla sem fyrst og fremst er verið að reyna að veiða og ef þeir gera það séu það tiltölulega einfaldar og traustar aðferðir sem leiða til þess að aflinn sé rétt skráður. Eins ef einhverjir vilja veiða á svæðunum geri þeir það á eigin kostnað, ef svo má segja, þeir leggi til eigin kvóta og hann sé rétt skráður og ef þeir reyni að svíkjast að einhverju leyti undan því verði sektirnar í samræmi við verðmæti meðaflans.

Ég held að það sé mun einfaldara að láta hagsmuni sjómanna og útgerða leiða til þess að þeir hegði sér skynsamlegar en að auka veiðieftirlitið og flækjustigið með lokunum sem ekki þyrfti að koma til ef menn forðast þau svæði.