131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnmálaþátttaka, áhrif og völd kvenna.

244. mál
[17:30]

Flm. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Áður en ég svara hv. þingmanni þessu með mjúku og hörðu málin ætla ég að byrja á því að fagna þeim karlmönnum sem eru í salnum. Ég segi eins hv. þingmaður að það er sérstaklega eftirtektarvert og gleðilegt að vera með karlmenn í þingsal, vegna þess að eitt af því sem menn sjá sem eru að vinna í jafnréttismálum er að það er gjarnan þannig, hvort sem það eru ráðstefnur eða málþing, að það eru alltaf konur að tala við konur. Það vantar viðmælandann í umræðunni því að við náum engum árangri nema með samstarfi karla og kvenna.

Útgangspunkturinn hlýtur að vera sá að það sé til að auðga og nýta krafta kvenna í íslensku samfélagi til jafns við karla sem við viljum fjölga þeim. Þetta sé ákveðinn auður sem við viljum nýta í þágu samfélagsins.

Varðandi mjúku og hörðu málin segir hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason að konur séu konum verstar. Ég ætla ekki að taka undir það. En konur gera kannski enn meiri kröfur til kynsystra sinna en þær gera til karla og mörgum finnst oft á tíðum að konur séu gagnrýnni á kynsystur sínar, ekki síst í pólitíkinni, en á karla. Ég vil ekki taka undir með hv. þingmanni að konur séu konum verstar. En þetta er einmitt spurningin: Hvert er bakland kvenna í stjórnmálum? Geta þær treyst á konur sem baklandið?

Varðandi mjúku málin og hörðu málin má segja að með kvenkyns iðnaðarráðherra og karlkyns félags- og heilbrigðismálaráðherra séum við með sýnishorn af undantekningum í íslensku samfélagi. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra er fyrsta konan sem skipar sæti atvinnumálaráðherra. Það segir svolítið. Við vorum með kvenforseta lýðveldisins. Við eigum unga konu sem er forstjóri stórs flugfélags að ónefndum forstjóra álversins. En þetta eru allt sýnishorn, sýnishorn af því hvað konur geta. Það dugar körlum ekki að benda og segja: Þetta komst hún. Það þýðir ekki að bera það fyrir sig. Það er ekki jafnræði nema það sé jafn hlutur. (Forseti hringir.) Ég benti líka á það að hér skiptist salurinn og kynin eftir því hvaða mál er verið að ræða.