131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnmálaþátttaka, áhrif og völd kvenna.

244. mál
[17:35]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa yfir stuðningi við þingsályktunartillöguna sem hv. þm. Jónína Bjartmarz mælti fyrir og tíu aðrir hv. þingmenn eru meðflutningsmenn að. Ég held að það sé ágætt að Alþingi gangi fram fyrir skjöldu í að kanna stöðu kvenna og viðhorf bæði til stjórnmála og starfa sem og önnur atriði sem miklu máli skipta fyrir það viðhorf að konur hafi jafna stöðu að flestu og öllu leyti eins og við karlar.

Það vill svo til að sá sem hér stendur er úr níu systkinahópi og var þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga sjö systur og aðeins einn bróður. Það mætti kannski halda að ég hafi lent í miklu kvennaríki eða kvennaofríki á uppvaxtarárum mínum. Ég held að það hafi ekki verið, allavega hef ég ævinlega litið svo á að allar systur mínar stæðu mér fyllilega jafnfætis og sumar ábyggilega betur af guði gerðar en sá sem hér stendur. Ef eitthvað er naut ég leiðsagnar þeirra þegar strákurinn var of frekur á sínum yngri árum, eins og oft vill verða þegar einn strákur er innan um fimm systur, því að þær fæddust fimm á undan mér, þá fékk maður smá hirtingu frá þeim og það var ágætt. Ég hugsa að ég hafi lært vel af því.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef aldrei fundið fyrir því á ævi minni eða af reynslu minni af fjölskyldunni að systur mínar hafi ekki staðið fyllilega jafnfætis körlum og að viðhorf þeirra og sjónarmið hafi ekki haft sama rétt og sama vægi. Hins vegar situr tíðarandinn úr gamla íslenska þjóðfélaginu lengi eftir, það er sagt að það þurfi oft þrjár, fjórar kynslóðir til að breyta viðhorfum í þjóðfélagi og fá fram raunverulegar breytingar og menn séu farnir að tala um breytingarnar áratugum áður en þær ná endanlega í gegn í þjóðfélagsskipuninni, valdahlutföllum o.s.frv. Þess vegna held ég að það sé algjörlega rétt að reyna að hreyfa við þessum málum með þeim hætti sem hér er lagt til og ég styð það. Ég held að það sé mjög eftirsóknarvert fyrir okkur sem höfum starfað í félagsmálum og störfum nú í stjórnmálum að hlutur kvenna aukist.

Ég get sagt það að í mínum flokki, sem er ekki orðinn mjög öldruð stofnun, við erum á öðru kjörtímabili okkar, að þá var það þannig í upphafi að við í Frjálslynda flokknum tókum mikla umræðu og mikla stefnumótun í sjávarútvegsmálum. Hv. þm. Jónína Bjartmarz benti réttilega á það áðan úr þessum ræðustól að þegar við ræddum sjávarútvegsmálin áðan tók enginn kvenmaður þátt í þeirri umræðu. Í Frjálslynda flokknum tóku tiltölulega fáar konur innan okkar raða þátt í umræðum um sjávarútvegsmál. Hins vegar við höfum auðvitað verið að útvíkka áherslur flokksins og búa til málefnagrunn okkar á fjöldamörgum sviðum þjóðlífsins og konur hafa í vaxandi mæli komið að starfi flokksins.

Það er ánægjulegt fyrir mig að geta sagt frá því í þessum ræðustól að á landsþingi flokksins, sem var haldið 4. og 5. mars sl., fjölgaði konum í miðstjórn flokksins verulega. Þær eru nú níu og við náðum að fylla 40% hlutfallið sem hefur verið talið ákaflega eftirsóknarvert að stefna að í störfum stjórnmálaflokka. Það gerðist í lýðræðislegri kosningu þegar verið var að kjósa til miðstjórnar í Frjálslynda flokknum á landsfundi okkar. Ég vonast vissulega til þess að viðhorf kvennanna í miðstjórn Frjálslynda flokksins muni hafa áhrif á stefnu hans til framtíðar, ég tel það einboðið og fagna því.

En rétt er líka að segja það að stundum finnst körlum að verið sé að ýta þeim til hliðar þegar verið er að reyna að uppfylla ákvæðið að fjölga konum í stjórnum félagasamtaka eða stjórnmálaflokka og þeir una því stundum illa að missa þá stöðu sem þeir hafa haft í félagasamtökum eða í stjórnmálaflokkum við það að konum fjölgar. Það getur auðvitað ekki annað gerst þegar konum fjölgar í einhverjum stjórnum, nefndum eða ráðum, sveitarstjórnum eða á Alþingi, það þýðir að annarri óbreyttri stöðu að karlar víkja úr þeim störfum. Menn verða bara að taka því eins og það er og una því lýðræði. En menn sætta sig ekki alltaf við það, það koma oft viðbrögð við því og menn spyrja hvað sé að gerast — þó að það jafni sig yfirleitt þegar frá líður og menn átta sig á því að hér eru að ganga inn hægt og rólega þjóðfélagsbreytingar og vonandi stefnum við í rétta átt að því leyti.

Sum málefni vekja meiri áhuga okkar karlanna en önnur og það er eins varðandi kvenþjóðina. Það er alveg greinilegt að konur hafa ekki sama áhuga og við karlar á sumum málum. Samgönguumræðan var nefnd sem dæmi þó ekki sé hægt að halda því fram að samgöngurnar séu ekki jafnt fyrir bæði kynin eða að fólk hafi ekki sama hag af góðum samgöngum hér á landi hvort sem það eru karlar eða konur. Það er kannski ekki hægt að segja alveg nákvæmlega það sama um sjávarútveginn. Í sjávarútveginum starfa miklu fleiri karlar en konur, ég þekki það vel, ég var í kjaramálum fyrir sjómenn og starfaði fyrir samtök sjómanna í áratugi og þurfti að semja og leiða kjarasamninga fyrir sjómenn. Ég þurfti aldrei að velta því fyrir mér hvort launamunur væri milli karla og kvenna í þeim kjarasamningum því launakerfið er þannig uppbyggt að þar eru launin nákvæmlega eins hvort sem það er karl eða kona. En það verður líka að segjast eins og er að konurnar til sjós voru ákaflega fáar. Ef þær voru um borð í skipunum á þeim árum þegar ég var til sjós voru þær oftast nær matsveinar, gegndu því starfi, þó að konur sem hásetar sæjust þar einstöku sinnum.

Ég lýsi yfir stuðningi mínum við tillöguna. Ég tel prýðilegt að hún sé fram komin og tek undir það sem segir í niðurlagsorðunum um að (Forseti hringir.) Alþingi Íslendinga hafi frumkvæði.