131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnmálaþátttaka, áhrif og völd kvenna.

244. mál
[17:44]

Flm. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði rétt að bregðast við tveimur atriðum sem fram komu í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Ég þakka honum fyrir stuðninginn við málið og fyrir að taka þátt í umræðunni og vil enn lýsa ánægju minni yfir því að horfa framan í andlit karlþingmannanna sem hér eru. Það er svolítið sérstakt þegar maður er að ræða um jafnréttismál að hafa einungis karlmenn fyrir framan sig, ekki konur.

Áhugamál kvenna eru önnur. Ef maður tekur tillit til undantekninganna sem alltaf eru, þó ekki hafi það verið í sjávarútvegsumræðunni fyrr í dag, má kannski segja að pólitík kvenna frekar en karla snúist um að skapa þær aðstæður að ala upp nýtan þjóðfélagsþegn. Það má kannski segja að það sé kjarninn í þeirri pólitík sem flestar konur reka og standa fyrir. En þetta er undantekningum háð alveg eins og sjávarútvegsumræðan á síðasta þingi, þá áttum við konu sem var mjög virk í því. Það eru því undantekningar frá öllu.

Hv. þingmaður nefndi líka 40% hlutfallið, það hlutfall kvenna sem Frjálslyndi flokkurinn er kominn með í miðstjórn sína. Þá er kannski rétt að geta þess að á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins lögbatt hann 40%, það skyldi vera 40% hlutfall hvors kynsins sem var, aldrei undir því, í öllum ábyrgðastöðum á vegum flokksins og á framboðslistum hans. Þetta er ekki hið endanlega markmið að konur séu vegna einhvers kvóta í pólitík. Við trúum því að það séu til konur til að fylla það hlutfall og gott betur og þetta er til að laða þær að til góða fyrir pólitíkina og samfélagið. Endanlega takmarkið er að vera ekki með neina kvóta.

Ég vil sérstaklega óska hv. þingmanni til hamingju með að hafa náð þessu hlutfalli í miðstjórn Frjálslynda flokksins og hef þá trú að starfsemi flokksins alls muni eflast við þá viðbót.