131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Rannsóknarmiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu.

250. mál
[18:47]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir orð hans og undirtektir við þingsályktunartillögu mína. Mér þykir a.m.k. afar vænt um að þingmaðurinn skuli sýna máli þessu áhuga. Hér er, held ég, um mikið framfaramál að ræða sem er atvinnuskapandi og mundi í raun víkka út starfsemina hjá Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti.

Þegar við veltum fyrir okkur fjármögnun að þessu leyti hugsa ég nú fyrst og fremst til stóra bróður, þ.e. ríkisins. Ég held að ríkið verði að koma að rekstri slíkrar stofnunar en ég sé líka fyrir mér að hægt væri að selja út vinnu vísindamanna. Þarna er um rannsóknastörf og leiðbeiningar að ræða. Ég sé líka fyrir mér að þetta gæti verið nokkurs konar menntastofnun eins og Norræni eldfjallaskólinn o.fl. Möguleikarnir eru gríðarlega miklir. Ég held að ekki væri hægt að komast hjá því að ríkissjóður tæki að sér að stórum hluta rekstur þessarar stöðvar.