131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Rannsóknarmiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu.

250. mál
[18:51]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað gaman að komast aðeins á flug varðandi þessa þingsályktunartillögu, hún gengur í raun og veru svolítið inn í framtíðina. Hún tengist líka öðrum löndum en Íslandi þó að sérstaða okkar sé gríðarleg að þessu leyti til. Eins og fram kom í ræðu minni áðan er Landgræðsla ríkisins elsta stofnun sinnar tegundar í heiminum og þar er gríðarleg reynsla á þessum sviðum. Ég sé einmitt fyrir mér að þetta starf gæti flokkast undir þróunaraðstoð, þ.e. það sem við erum að gera í þessum efnum og í raun og veru mætti spinna mjög mörgu saman við það sem við ræðum hér.

Ég vonast til að þingsályktunartillagan fái farsæla afgreiðslu í þinginu og rannsóknarmiðstöðin verði að veruleika í framtíðinni og þá held ég að Gunnarsholt sé einmitt rétti staðurinn. Þar er reynslan, þar er þekkingin og þetta yrði gríðarlega mikil lyftistöng fyrir landsbyggðina.