131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Frestur til að skila inn kauptilboðum í Símann.

[15:08]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Af því að hæstv. forsætisráðherra nefnir fyrirtækið Morgan Stanley vil ég spyrja hverju það sæti að sú skýrsla og sú ráðgjöf skuli ekki vera gerð opinber. Í öðru lagi skiptir verðið á fyrirtækinu kannski ekki öllu máli. Ef þjóðin er að kaupa af sjálfri sér er það úr einum vasanum í annan hjá þjóðinni.

Síðan verð ég að segja að mér finnst það ekki ganga hjá hæstv. forsætisráðherra að ætla að skýla sér á bak við einkavæðingarnefnd. Ríkisstjórnin hefur öll tök á þessu máli. Hæstv. forsætisráðherra sem yfirmaður nefndarinnar eða hæstv. fjármálaráðherra sem fer með málefni Símans geta með einu símtali eða einu bréfi lagt það fyrir einkavæðingarnefnd að veita rýmri tíma. Það er auðvitað annað mál að safna saman þúsundum og jafnvel tugþúsundum einstaklinga til að vera þátttakendur í þessu en fyrir fyrirtæki að skipuleggja sig saman. Það veldur mér vonbrigðum að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki taka af skarið og segja afdráttarlaust að almenningi muni veitast nægur tími til að vera fullgildur þátttakandi í þessu.