131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Frestur til að skila inn kauptilboðum í Símann.

[15:11]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Mér finnst þetta mjög merkileg yfirlýsing. Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu um þessi mál í desember 2003. Nú segir hv. þingmaður að fara þurfi fram sérstök rannsókn á málinu. Er það sem sagt svo að hv. þingmaður treysti ekki lengur Ríkisendurskoðun sem eftirlitsstofnun Alþingis? Það er orðið mjög alvarlegt mál ef Alþingi sjálft treystir ekki þeirri eftirlitsstofnun sem heyrir beint undir Alþingi, og vill fara að skipa einhverjar rannsóknarnefndir í tilteknum málum. Hér liggur allt annað undir. Það er verið að reyna að gera hluti tortryggilega sem hefur verið farið yfir og skýrslum skilað um. Auðvitað á Ríkisendurskoðun að halda áfram þessu starfi. Það er að mínu mati sjálfsagt að efla Ríkisendurskoðun vegna þess að Ríkisendurskoðun er sú stofnun sem hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu fyrir hönd Alþingis. Ef Alþingi treystir ekki sínum eigin stofnunum lengur er illa komið.