131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Ráðstöfun söluandvirðis Símans.

[15:22]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Í því ferli sem nú er farið af stað er gert ráð fyrir því að sölu Símans ljúki í júlímánuði. Hugsanlega gæti það dregist eitthvað fram í ágúst. Það er ekki fyrr en að því loknu sem vitað er hvað fæst fyrir þetta fyrirtæki. Það liggur þó alveg ljóst fyrir að það mun auka möguleika ríkisins til að ráðast í mörg verkefni sem við hefðum annars ekki getað farið í. Þar kemur vissulega margt til greina. Það hefur verið rætt um það. Það er síðan meiri hlutans á Alþingi, og Alþingis ef meiri hluti um það myndast, að ráðstafa þessum tekjum, fyrst og fremst til að styrkja stöðu ríkisins en líka hugsanlega til að ráðast í tiltekin verkefni.

Við getum farið í meiri fjárfestingar, sérstaklega á árunum 2007 og 2008. Það er að sjálfsögðu Alþingis að taka ákvörðun um það. Mörg verkefni hafa verið nefnd í þessu sambandi. Það liggur fyrir að það er mikill áhugi hér á Alþingi hjá hv. alþingismönnum að ráðast í mörg samgöngumannvirki sem ekki eru á vegáætlun. Það er sjálfsagt að fara í það. Það hefur komið skýrt fram að við þurfum að fara í Sundabraut og fjármagna hana sérstaklega og auðvitað kemur til greina að ráðstafa hluta af tekjum sem koma vegna þessa í slíkt verkefni. Það kemur til greina, en til þess þurfum við að taka afstöðu þegar þar að kemur. Fyrst er að ganga frá þessari sölu og að alþingismenn hafi úthald í það að fá sem mest verð fyrir þetta mikilvæga fyrirtæki.