131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Loftferðir.

699. mál
[16:32]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir ágætar undirtektir við frumvarpið sem hafa komið fram í ræðum þeirra og vil ég aðeins víkja að þeim atriðum sem beint var til mín í umræðunni.

Fyrst er að taka til þess sem hv. þm. Jón Bjarnason nefndi. Það liggur algerlega ljóst fyrir að um millilandaflugið gilda sérstakar reglur. Hér er fyrst og fremst verið að fjalla um þær, og þær gilda þá um þá flugvelli sem eru alþjóðaflugvellir og flogið er til. Í okkar tilviki hefur verið stundað millilandaflug frá Keflavíkurflugvelli, að sjálfsögðu, og svo Reykjavíkur-, Egilsstaða- og Akureyrarflugvöllum þannig að við eigum ekki að þurfa að gera ráð fyrir því að þurfa að stilla upp öryggisaðgerðum á Gjögur- eða Grímseyjarflugvöllum með sama hætti og er í millilandafluginu. Það er nauðsynlegt að hv. þingmenn átti sig á því. Út af fyrir sig er ekki um umtalsverðar breytingar að ræða að öðru leyti en því að hér er verið að taka upp reglur sem m.a. leggja áherslu á aðskilnað annars vegar eftirlits og hins vegar framkvæmdar í rekstri og þjónustu á flugvöllum og flugstöðvum sem er geysilega mikilvægt að undirstrika.

Hvað varðar ákvæði um hergagnaflutninga er í rauninni ekki um neitt nýtt að ræða að öðru leyti en því að ráðherra getur framselt framkvæmdina á þessu til Flugmálastjórnar en ekki er um nein nýmæli að ræða að öðru leyti hvað varðar hergagnaflutningana. Hins vegar er heimildin um vopnaða verði nýmæli eins og ég kom mjög rækilega inn á í framsöguræðu minni. Ég fagna viðbrögðum og því raunsæja mati sem kom fram hjá þeim hv. þingmönnum sem hér töluðu um það.

Að sjálfsögðu verða öryggisverðir, ef til þess þyrfti að koma í íslenskum flugförum á vegum Íslendinga, væntanlega íslenskir ef um það yrði að ræða. Aðalatriðið er þó að þeir yrðu algerlega undir valdi og umsjón þeirra sem íslenskir eru og ég vil bara undirstrika að til þess kemur ekki nema mjög margir aðilar komi að þeirri ákvörðun, fyrst og fremst fjallar auðvitað ríkislögreglustjóraembættið um slíka þætti.

Tímalengd flugrekstrarleyfa er ekki bundin. Gefin eru út flugrekstrarleyfi en síðan er strangt eftirlit með flugrekstraraðilum. Þannig tryggjum við öryggið. Útgáfa leyfanna er ekki endurtekin með sérstöku millibili en fyrst og fremst er það eftirlitið sem er mikilvægt og er mjög skýrt skilgreint.

Hv. þm. Kristján Möller benti á það að Evrópusambandið hefur lagt áherslu á að vera í fararbroddi um flugöryggismál og að hluta til endurspeglum við þá staðreynd með því að fjalla um þetta frumvarp og þær breytingar sem um er að ræða. En ég vil gera það að sérstöku umtalsefni að þar hafa Íslendingar komið mjög sterkt að. Okkar ágæta fólk sem vinnur að flugöryggismálum á vettvangi Flugmálastjórnar hefur mikla reynslu og er afskaplega vel metið á þessum vettvangi sem m.a. má sjá af því að nú hefur flugmálastjóri Þorgeir Pálsson verið valinn til forustu í Flugöryggissamtökum flugmálastjórna Evrópu og tekur við formennsku þar í ágústmánuði. Okkar fólk er að vinna að undirbúningi, bæði hvað varðar stefnumótun og regluverkið allt saman, þannig að við erum ekki blindandi að taka upp reglur, heldur erum virkir þátttakendur í því að skapa þetta flugöryggisumhverfi sem við Íslendingar höfum lagt svo ríka áherslu á. (KLM: Virk í Evrópu… .) Við erum að sjálfsögðu virk á hinu Evrópska efnahagssvæði og það er í samræmi við þann ágæta samning sem er fullnægjandi í öllum atriðum hvað þetta varðar fyrir okkur Íslendinga. Við getum komið þar mörgu góðu til leiðar og haft áhrif til hins betra á það starf allt.

Hvað varðar ákvæði um flugafgreiðslur og afkastagetu eru þarna ýmis nýmæli sem skipta geysilega miklu máli. Ákvæði eru skýr um reglur um flugafgreiðslur sem í gildi þurfa að vera og þær kröfur sem eru gerðar til þeirra aðila sem sinna þessari þjónustu. Þess vegna er mjög gott að hv. þingmaður skyldi benda á þetta.

Með sama hætti er afkastagetan. Mjög skýrt er kveðið á um að hægt sé að hafa eftirlit með því að flugvellir bjóði ekki upp á þjónustu sem stendur ekki undir nafni. Þess vegna eru þarna mjög skýr ákvæði sem eru að sjálfsögðu til öryggis fyrir flugrekendur vegna afgreiðslu og móttöku í flugumsjón, og þá ekki síður fyrir neytendur sem eru ekki alltaf hamingjusamir með að þurfa að bíða í biðröðinni á flugvöllum sem hafa ekki þá afkastagetu sem þeir hafa gefið sig út fyrir að hafa.

Hvað gerist ef innanlandsflugið færist til Keflavíkur? Ég er mjög undrandi á þessari spurningu, mjög undrandi að nokkrum detti í hug að það standi til og spyrji slíkrar spurningar. Hins vegar er sjálfsagt að svara hv. þingmanni. Við höfum nokkrum sinnum talað um það á hinu háa Alþingi, og eins og þekkt er höfum við tekið ákvörðun um að endurbyggja flugvöllinn og búa þannig um hnúta að þessari mikilvægu þjónustu, innanlandsfluginu, megi sinna frá Reykjavíkurflugvelli. Ef til þess kæmi að flytja þyrfti innanlandsflugið annað er alveg ljóst í mínum huga að það verður að byggja upp þá þjónustu alveg á nýjum forsendum. Í Keflavík yrði þá að koma upp umfangsmikilli aðstöðu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar með tilheyrandi kostnaði. Það er ekki eins og að hægt yrði að ganga inn á morgun og nýta þá aðstöðu sem þar er. Það er fjarri lagi. Mikill fjárfestingarkostnaður mundi fylgja slíkri breytingu og mikið rask, og endurskipuleggja þyrfti flugstöðina algerlega upp á nýtt í því ljósi.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, þakka ég fyrir ágætar umræður hér og vænti þess að hv. samgöngunefnd fari vandlega og rækilega yfir þetta frumvarp. Sá er jú tilgangurinn með umfjöllun á Alþingi.