131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[17:07]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn er með þessari lagasetningu að fjölga eftirlitsstofnunum. Í öðru lagi höfum við verið að leita að verkefnum fyrir sýslumenn í landinu. Ég sit í allsherjarnefnd og þar er verið að ræða þá hluti. Ég hefði talið kjörið fyrir sýslumenn sem eru margir hverjir staðsettir úti um land að fá aukin verkefni af þessu tagi. Þar er ágætur mannskapur til að fara yfir þá þætti sem er ætlað að fara yfir varðandi útgáfu leyfa. Ég skil í rauninni ekki heldur með hverju þessari stofnun er ætlað að hafa eftirlit.

Í 4. gr. frumvarpsins kemur fram að Ferðamálastofu er ætlað víðtækt hlutverk og ég spyr þá hæstv. ráðherra: Hvaða eftirlit á þessi stofnun að hafa með höndum? Á hún að hafa eftirlit með gæða- og skipulagsmálum? Ef menn eru að tala um, eins og kemur fram í athugasemd frumvarpsins, að 6 milljónir eigi að fara í þessa stofnun finnst mér það varlega áætlað. Mér finnst það mjög ótrúverðugt. Þess vegna væri áríðandi að hæstv. ráðherra gerði grein fyrir því hvaða eftirlit verið er að tala um.

Að auki finnst mér að gera þurfi betur grein fyrir því hver mörkin séu á milli þessarar nýju eftirlitsstofnunar og Ferðamálaráðs. Mér finnst það ekki koma skýrt fram. Það kemur fram í frumvarpinu að ferðamálastjóri, sem er yfirmaður þessarar eftirlitsstofnunar Sjálfstæðisflokksins, hafi málfrelsi og sitji fundi Ferðamálaráðs. Það er óneitanlega mjög sérstakt.