131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[17:15]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að ítreka akkúrat það sem fram kemur í ályktuninni frá Samtökum ferðaþjónustunnar og taka undir með þeim, að á sama tíma og uppgangur er í greininni og þessi miklu tækifæri blasa við til að ná enn meiru út úr henni og skjóta enn frekari stoðum undir hana hlýtur að skjóta skökku við að hið opinbera skuli daga úr opinberum framlögum til markaðsmála. Greinin er klárlega að ganga í gegnum ansi erfiða tíma núna og viðkvæma þó svo að áfram sé þessi vöxtur. Eins og fram hefur komið voru gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar rúmlega 39 milljarðar á síðasta ári og jókst, eins og ég sagði áðan, um 5,4%. Er aukningin að stærstum hluta vegna eyðslu erlendra ferðamanna, þ.e. 26 milljarðar kr.

Eins má nefna í sambandi við farþegafjölgun að hún hefur verið talsverð á milli ára. Það eru þó blikur á lofti. Eins og bent var á í ályktuninni frá aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar á greinin einnig við erfiðleika að stríða og sérstaklega þar sem hún er að standa af sér hina miklu tekjurýrnun vegna sterks gengis krónunnar. „Fáar atvinnugreinar á Íslandi eru jafnberskjaldaðar fyrir gengissveiflum og ferðaþjónustan“ segir þar og því á að sjálfsögðu að styðja við bakið á greininni, byggja undir þennan mikla uppgang. Ástæða er til að harma það að samgönguyfirvöld og hið opinbera skuli kjósa að draga úr framlögum til markaðsmála á sama tíma og öll tækifærin blasa við í greininni. Er ástæða til að taka eindregið undir með Samtökum ferðaþjónustunnar sem harma það hvernig stjórnvöld ganga fram í málefnum sem lúta að framlögum til markaðsmála í greininni.