131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[13:33]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Nú liggur það fyrir að hingað eru enn þá að berast ný mál og áttu þó að liggja fyrir samkvæmt starfstilhögun þingsins miðað við 1. apríl sl. Okkur er það alls ekki ljóst í stjórnarandstöðunni hvernig framhaldið verður á þessu þingi og ég spyr hæstv. forseta hvort hann viti til þess að fleiri mál séu að koma inn, jafnvel í stærri kantinum og jafnvel umdeild mál, sem við eigum svo að taka afstöðu til áður en þingi lýkur. Mér telst svo til að það séu um það bil 10 fundadagar eftir í þinginu, hæstv. forseti.

Ég geri athugasemd við það hvernig virðist horfa um störf þingsins að þessu leyti og vildi fara fram á það að hæstv. forseti gerði okkur grein fyrir því ef hann vissi til þess að ríkisstjórnin væri á leiðinni inn með fleiri mál, og hvaða mál það væru þá.