131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[13:38]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon beindi engri fyrirspurn til mín. Hann beindi máli sínu til hæstv. forseta og ég hef að sjálfsögðu átt samtöl við hæstv. forseta um þessi mál.

Við munum að sjálfsögðu vinna að framgangi mála með hefðbundnum hætti á Alþingi eins og við höfum ávallt gert. Ég vil upplýsa hv. þingmann og aðra þingmenn um að það eru engin önnur mál sem munu koma frá ríkisstjórninni á þessu þingi sem við munum leggja áherslu á að verði lokið. Tvö mál voru afgreidd frá ríkisstjórninni í morgun en við gerum ekki ráð fyrir því að þau verði afgreidd sem lög frá Alþingi að þessu sinni. Eitt mál var afgreitt að tillögu minni frá ríkisstjórninni á ríkisstjórnarfundinum þar á undan og við gerum ekki ráð fyrir að nein frekari mál muni koma fram sem við leggjum áherslu á að verði lokið.

Hins vegar eru fjölmörg mál í nefndum sem er mikilvægt að verði lokið, búið að leggja mikla vinnu í. Ég vænti þess að það skýrist betur að loknum nefndardögum þannig að við gerum okkur þá betur grein fyrir því hvernig við getum lokið þingi með þeim hætti að þau mál sem skipta sköpum nái fram að ganga. Þau eru mörg, það er rétt. Mörg þeirra hafa komið of seint fram en ég vænti þess að við munum eiga gott samstarf um það, eins og endranær, á Alþingi.