131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Höfundalög.

702. mál
[14:02]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er mikið mál að vöxtum á ferðinni sem kemur inn á margt. Ýmsar athugasemdir og tillögur komu fram í bréfi frá félaginu Netfrelsi vegna frumvarps til laga um breytingu á höfundalögum og barst okkur þingmönnum í morgun. Þeir koma inn á mörg atriði sem lúta að rétthöfum annars vegar og notendum hins vegar og telja greinilega að það halli töluvert á notendur í málinu. Að mati Netfrelsis mun aukin skerðing á réttindum neytenda, svo sem vegna banns við sniðgöngu tæknilegra ráðstafana einnig hafa letjandi áhrif á sölu og stemma stigu við frekari sköpun. Þeir benda á margt annað sem þeir telja að halli á notendur, t.d. að höfundarréttarnefnd sé skipuð sex fulltrúum rétthafa og einum fulltrúa menntamálaráðuneytisins og því verði að breyta.

En fyrst og fremst vil ég fá viðhorf hæstv. ráðherra til fullyrðinga Netfrelsis um að lagagerð þessi geti haft letjandi áhrif á sölu og stemma stigu við frekari sköpun og því sem félagið bendir einnig á að það halli verulega á notendur og ákvæði rétthafa séu of mikil en notenda fyrir borð borin sem stutt er með margvíslegum rökum í athugasemdum og tillögum við einstakar greinar frumvarpsins.