131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Höfundalög.

702. mál
[14:08]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að ég hefði kosið að vinnunni hefði allri verið lokið, en eftir að hafa vegið málið og metið sá ég fram á að það hefði ekki náðst á þessu vorþingi. Þó verður að geta þess að ákveðin réttindi eru tryggð í frumvarpinu sem skipta miklu máli og menn telja rétt að hægt verði að fá þau í gegn á þessu þingi, því menn meta einfaldlega hagsmunina það mikla að þeir geti ekki beðið til haustsins. Einnig þurfum við að framfylgja tilskipuninni, það er líka annar punktur.

Ég vil undirstrika það og tek undir með hv. þingmanni að tryggja þarf betri aðkomu neytenda að höfundarréttarmálefnum. Ég held að við komum tvímælalaust til með að líta til þeirrar heimildar sem kveðið er á um höfundarréttarráð, þar sem ég sé fram á að aðkoma neytenda að þessum málefnum verði tryggð og um leið heildarendurskoðuninni er varða málefni höfundarréttar.