131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Höfundalög.

702. mál
[14:09]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir mikla vinnu sem auðsjáanlega liggur að baki frumvarpinu af hálfu ráðuneytis og ekki síður höfundarréttarnefndar. Þess er svo að geta að frumvarpið er nokkuð seint fram komið. Það var lagt fram 11. apríl og er nú í 1. umr. í dag, 19. apríl, en sem kunnugt er eiga þingmál að hafa borist forseta fyrir 1. apríl á hverju ári ef þau eiga að ná í umræðu. Þetta gildir a.m.k. um okkur dauðlega þingmenn og ég tel rétt að geta þessa í tilefni af umræðunni áðan að mér finnst að hæstv. menntamálaráðherra og aðrir hæstv. ráðherrar eigi að virða þá reglu líka.

Danir, frændur okkar, lögleiddu svipaða hluti og hér er gert ráð fyrir árið 2002, en við erum nokkuð á eftir hinum suðlægu þjóðum í þessu efni. Svo mikið að sögn greinargerðarinnar að við hefðum átt að vera búin að ganga frá lögunum fyrir 10. janúar 2005, þ.e. fyrir u.þ.b. þremur mánuðum.

Hér er um að ræða endurskoðun höfundalaga í samræmi við Evróputilskipun frá 2001 sem hefur tekið okkur fjögur ár að eiga við. Að vísu hefur það líka verið sameiginlegt verkefni EES-ríkjanna, þeirra sem eiga samstöðu gagnvart Evrópusambandinu. Aðaláherslan er á höfundarrétt við nýjar aðstæður upplýsingatækninnar. Sú leið virðist farin að beita nokkurn veginn ýtrustu hugsanlegum ákvæðum til þess að tryggja höfundarrétt í hinni stafrænu framtíð.

Höfundarrétturinn er ákaflega mikilsverður og okkur ber að standa vörð um hann í samtíð og framtíð. Á hinn bóginn mega of strangar reglur um höfundarrétt ekki skerða eðlilegt svigrúm almennings sem ekki ætlar sér neins konar hlut af markaðslegum ávinningi höfundar. Höfundarrétturinn má ekki verða svo harðskeyttur að hann stöðvi eðlilega þróun og samskipti á sviði lista og menningar.

Okkur þingmönnum hafa í tilefni af frumvarpinu borist athugasemdir frá félagsskapnum Netfrelsi, sem nefndur var áðan. Þær bera með sér hvin umræðu sem hefur geisað í grannlöndum okkar um þessi efni. Í menntamálanefnd þarf að gá sérstaklega að þeim rökum sem borið hefur hæst í þeirri umræðu á Norðurlöndum og víðar í Evrópu.

Það komu líka athugasemdir frá starfshóp um höfundarrétt á vegum Upplýsingar, sem er félag bókasafns- og upplýsingafræða, fyrir svo skömmum tíma að ég hef nánast ekki náð að lesa þær yfir í heild. Þær varða m.a. rafræna miðlun verndaðra verka á bókasöfnum sem fer t.d. fram við millisafnalán. Þær varða miðlun á stafrænu efni á skólabókasöfnum vegna t.d. fjarnáms og aðgang að stafrænu efni á söfnum til fræðistarfa eða einkarannsókna sem þeim þykir vanbúið um í frumvarpinu. Þær athugasemdir verðum við einnig að skoða ákaflega vel.

Við höfum bundist í félag með Evrópuþjóðum og af þeim ástæðum getum við ekki hagað okkur eins og okkur sýnist þegar um er að ræða alþjóðleg málefni af þessu tagi. Hins vegar hefur það borið við og reynslan hefur sýnt að í ráðuneytunum er ekki endilega gætt að sérstöðu íslensks samfélags þegar kemur að því að færa Evróputilskipanir í íslenskan búning og stundum er ekki gætt að raunverulegum pólitískum vilja hérlendis.

Á Alþingi hefur ekki verið mikil aðstaða til að fara í gegnum mál eins og þyrfti að gera með þeirri forsögu og þeim alþjóðahljómi sem hér um ræðir.

Ljóst er að mikið ríður á að mál af þessu tagi fái ítarlega meðferð í þeirri nefnd sem um ræðir hverju sinni, þar sé tryggt að allir aðilar máls og áhugamenn geti komið að sjónarmiðum sínum, eins og sést á þeim sendingum sem við þingmenn höfum strax fengið. Fyrir því hyggjumst við samfylkingarmenn beita okkur hvað varðar frumvarp þetta um breytingu á höfundalögum sem mælt er fyrir í dag, 19. apríl 2005.