131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Höfundalög.

702. mál
[14:14]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram varðar þetta frumvarp mikilvæga hagsmuni, höfundarréttinn, og frumvarpið gerir ráð fyrir því að styrkja réttindi manna sem hafa skapað og sent frá sér hugverk.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu felur meginefni þess það í sér að innleiða tilskipun frá árinu 2001 sem stafar frá Evrópuþinginu. Það vill þannig til að hér fyrir þinginu hefur verið mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um staðfestingu á þessari tilskipun. Sú þingsályktunartillaga hefur verið til meðferðar í utanríkismálanefnd. Fyrir þá nefnd komu helstu hagsmunaaðilar á þessu sviði, svo sem fulltrúar frá Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Hagþenki, Rithöfundasambandi Íslands, Myndstefi, Félagi íslenskra bókaútgefenda og Fjölís. Allir þessir aðilar lýstu yfir stuðningi við þetta frumvarp, þ.e. við þær efnisreglur sem fram koma í tilskipuninni og endurspeglast í því frumvarpi sem hér er til meðferðar.

Ég heyrði að hv. þm. Mörður Árnason taldi að rétt væri að taka tillit til sjónarmiða félagsskaparins Netfrelsis. Ég tek í sjálfu sér alveg undir það að því leyti að það er rétt að hlusta á raddir netverjanna. Telur hv. þm. Mörður Árnason í ljósi þessara ummæla sinna að það sé rétt að gera tilslakanir hvað varðar vernd höfundarréttar frá því sem nú er?