131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Höfundalög.

702. mál
[14:21]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um að hlusta beri á allar þær raddir sem upp hafa komið í þessu efni, skoða þann veruleika sem þróun stafrænnar tækni hefur haft í för með sér, athuga hver viðbrögð séu réttilegust og best í því efni. Það auðvitað takmarkar umræðu okkar að Evrópusambandið og hinar EES-þjóðirnar sem við erum í félagi með hafa komist að ákveðinni niðurstöðu í þessum málum en það á ekki að þýða það að við förum orðalaust í kjölfar þeirra, heldur eigum við að skoða sjálfstætt þetta frumvarp. Við eigum að gera það í menntamálanefnd ef þau tilmæli hæstv. ráðherra verða samþykkt að vísa því þangað án tillits til þess hvað menn kunna að hafa gert í öðrum nefndum.

Það er alveg rétt hjá Sigurði Kára Kristjánssyni, hv. þingmanni, og það vita menn, að þetta hefur verið mikið álitamál. Ég held að við eigum að nálgast það mjög varlega og ekki reyna að búa til gildrur handa hvert öðru hér í salnum. Höfundarrétturinn er mikilvægur en það eru líka til sjónarmið sem segja að hinar ýtrustu kröfur sem gerðar eru í hans nafni til þeirrar nýju tækni sem um ræðir kunni að vera ofætlan, kunni að hitta sjálfar sig fyrir að lokum. Það er auðvitað rétt að hlusta á þau sjónarmið en að sjálfsögðu fyrst og fremst með réttindi höfunda í huga og þá mikilsverðu skipan mála sem menn hafa náð fram hér á síðustu öld og ég hygg á ofanverðri þeirri næstsíðustu um þessi mál.