131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:02]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil áhyggjur hæstv. ráðherra af skilgreiningunum á „markaðsráðandi“ og „umtalsverðri markaðshlutdeild“. Svo kemur nýtt hugtak, „umtalsverður markaðsstyrkur“. Mér finnst mjög mikilvægt að þessi hugtök séu skýrð og að það sé nokkuð samræmt í þessu viðskiptaumhverfi hvað við er átt þannig að ég varpa því hér inn og spyr hæstv. ráðherra: Eru þær breytingar sem hér er verið að leggja til á hugtökum eitthvað samræmdar? Ég tel að það eigi að vera samræmi á hugtökum hvað þetta varðar.

Varðandi greiðslu jöfnunargjaldsins var ég að vísa til greinargerðar með frumvarpinu þar sem talað var um úrskurð yfirskattanefndar um beitingu álags vegna vanefnda á greiðslu jöfnunargjalds. Þetta mál virðist hafa farið það langt að það hefur lent í úrskurði hjá yfirskattanefnd. Þess vegna spyr ég: Hvernig hefur framkvæmdin verið til þessa með innheimtu á jöfnunargjaldi og greiðslu vegna alþjónustu?

Auk þess hefði ég viljað spyrja hæstv. ráðherra um þann ágreining sem hefur komið upp milli Persónuverndar og ráðuneytisins varðandi mörg ákvæði þessa frumvarps sem lúta að hleruninni. Mun ég koma að því í ræðu minni. Mér finnst reyndar þessi hlerunarkafli óhuggulegur. Manni finnst maður vera staddur í einhverjum sögum, jafnvel allt að því skáldsögum eins og frá Stasi-tímanum í Austur-Þýskalandi (Forseti hringir.) án þess að ég þekki til þess persónulega. (Forseti hringir.) Þessi hlerunarárátta, frú forseti, er alvarlegt mál.